Erlent

Ekki hægt að tala um John Oliver í Kína

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John Oliver er ekki vinsæll alls staðar.
John Oliver er ekki vinsæll alls staðar. Vísir
Sé ætlunin að ræða um breska spjallþáttastjórnandann John Oliver í Kína er það ekki lengur hægt, þar sem yfirvöld í Kína hafa ritskoðað nafn hans á vinsælustu samfélagsmiðlum Kína.

Nafn hans var ritskoðað eftir að Oliver fjallaði á afar gagnrýninn hátt um Xi Jinping, forseta Kína, í Last Week Tonight, vinsælum spjallþætti Olivers.

Í frétt BBC er greint frá tilraun fréttamanns BBC til þess að setja inn færslu á Weibo, stærsta samfélagsmiðli Kína. Í færslunni átti að standa „John Oliver“. Ekki var hægt að birta færsluna og upp kom villumelding þar sem kom fram að færslan væru brot á lögum og reglugerðum.

Þá skila leitarniðurstöður að nafni Olivers í Kína fáum niðurstöðum, og engum nýlegum sem ná yfir þátt hans um Kína.

Þáttur Olivers er ekki sýndur í Kína né er hægt að nálgast hann í gegnum YouTube þar í landi. Brot úr þáttunum hafa hins vegar verið aðgengilegar á hinum ýmsu síðum sem hýsa myndbönd í Kína.

Alþekkt er að yfirvöld í Kína ritskoði umræðu sem er þeim ekki að skapi. Þannig var til dæmis kínverskt heiti Bangsímons ritskoðað á samfélagsmiðlum eftir að notendur líktu Xi við teiknimyndapersónuna vinsælu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×