Erlent

Efnhagsráðgjafi Trump fékk hjartaáfall

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Larry Kudlow hefur staðið í ströngu að undanförnu.
Larry Kudlow hefur staðið í ströngu að undanförnu. Vísir/Getty
Helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í efnahagsmálum, Larry Kudlow, er sagður hafa fengið „vægt hjartaáfall“ á dögunum. Að sögn talsmanns Hvíta hússins er ekki gert ráð fyrir öðru en að Kudlow nái sér að fullu og mæti aftur til vinnu að endurhæfingunni lokinni.

Donald Trump greindi fyrst frá heilsufari Kudlow á Twitter, skömmu fyrir fund sinn með einræðisherra Norður-Kóreu.

Kudlow hefur haft í nógu að snúast síðustu vikur. Hann var til að mynda hægri hönd Trump á fundi G7-ríkjanna sem fram fór í Kanada á dögunum. Fundinum lauk með ósætti Bandaríkjanna og hinna ríkjanna sex og hótunum um umfangsmikið tollastríð.

„Larry er þessa stundina við hestaheilsu á hersjúkrahúsinu Walter Reed og læknarnir segja okkur að hann muni nái sér að fullu innan skamms,“ er haft eftir Söruh Huckabee Sanders, talsmanni Hvíta hússins, á vef breska ríkisútvarpsins.

Kudlow gekk til liðs við Hvíta húsið fyrr á þessu ári og segja greinendur að stefna hans og forsetans í efnahagsmálum sé sambærileg. Ef eitthvað er þá sé Kudlow harðari í afstöðu sinni en forsetinn.

Eftir G7-fundinn steig Kuldow fram og varði tollana sem Bandaríkjastjórn hefur boðað með kjafti og klóm. Það ætti ekki að kenna yfirmanni hans um spennuna sem nú sé ríkjandi milli G7-þjóðanna.

Þá bætti hann um betur og sagði að sendinefnd Bandaríkjanna hafði farið á fundinn í góðri trú en að forsætisráðherra Kanada hafi „stungið hana í bakið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×