Erlent

Kim Jong-un sparkar þremur æðstu embættismönnum hersins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Herforingi hvíslar einhverju að Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Herforingi hvíslar einhverju að Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/Getty
Þrír æðstu embættismenn norður-kóreska hersins hafa verið reknir úr embætti og yngri menn sem taldir eru hliðhollari Kim Jong-un leiðtoga ríkisins hafa verið skipaðir í embætti í stað þeirra.

Þetta hefur Reuters eftir háttsettum embættismanni innan bandaríska stjórnkerfisins sem fylgist grannt með gangi mála í Norður-Kóreu í aðdraganda leiðtogafundar Kim og Donald Trump í Singapúr 12. júní næstkomandi.

Suður-kóreska fréttaveitan Yonhap greindi fyrst frá en embættismenn Bandaríkjanna telja að nokkurrar óánægju hafi gætt í norður-kóreska hernum vegna nýlegra viðræðna Kim Jong-un og embættismanna hans við yfirvöld í Suður-Kóreu, sem og áætlanir um leiðtogafund Kim og Trump.

Meðal þeirra sem skipt var út voru varnarmálaráðherra Norður-Kóreu sem og æðsti herforingi norður-kóreska hersins en þeir sem tóku við embættunum eru allir sagðir vera yngri en forverar sínir í starfi.

Sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu segir að þetta bendi til þess að Kim Jong-un sé með þessu að enn frekar styrkja stöðu sína sem leiðtogi Norður-Kóreu og auka völd sín yfir hernum.

Rúm vika er í að Kim og Trump hittist í Singapúr gangi allt eftir en vonir standa til þess að Kim samþykki að hætta við kjarnorkuvopnavæðingu ríkisins í skiptum fyrir að viðskiptaþvingunum verði aflétt.


Tengdar fréttir

Hver á að borga hótelið fyrir Kim Jong-un?

Nú þegar allt lítur út að verði af leiðtogafundi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu sitja embættismenn ríkjanna nú á rökstólum til þess að undirbúa fundinn. Meðal þess sem rætt hefur verið er hver eigi að greiða fyrir hótelgistingu leiðtoga Norður-Kóreu.

Fundað og fundað um leiðtogafundinn

Kim Yong-chol, hershöfðingi og einn helsti ráðgjafi Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, fundaði í gær aftur með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×