Erlent

Segir lögmann Trump vera svín

Samúel Karl Ólason skrifar
Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels.
Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Vísir/AP
Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Cliffords segir Rudy Guiliani, lögmann Donald Trump forseta, vera „algjört svín“ og kvenhatara eftir að Guiliani gerði lítið úr Stormy Daniels og þá sérstaklega trúverðugleika hennar vegna starfa hennar í klámiðnaðinum.

„Fyrirgefið mér en ég ber ekki virðingu fyrir klámstjörnu á sama veg og ég ber virðingu fyrir vinnandi konu eða góða konu eða konu…sem selur ekki líkama sinn í kynferðislegum tilgangi,“ sagði Guiliani í gær á ráðstefnu í Ísrael.

„Ég meina, hún hefur engan orðstír. Ef þú selur líkama þinn fyrir peninga, hefur þú engan orðstír. Ég er kannski gamaldags, ég veit það ekki.“

Avenatti svaraði Guiliani á CNN í gærkvöldi.



„Giuliani er algjört svín fyrir að tala svona. Hann er í rauninni að segja að konur í klámiðnaðinum hafi engan orðstír og eigi ekki rétt á virðingu. Ég vona svo sannarlega að við séum ekki að nálgast stað þar sem Rudy Giuliani fari að stjórna því hvaða kona eigi skilið virðingu og hver ekki. Þessi ummæli hans eru svínsleg, sérstaklega á þessum tímum og forsetinn ætti að reka hann hið snarasta,“ sagði Avenatti.

Avenatti tjáði sig einnig um Guiliani og Trump á Twitter þar sem hann sagði meðal annars að Trump hefði ekki verið siðferðislega á móti Stormy Daniels, og öðrum konum, árið 2006 og síðan.

Stormy Daniels heldur því fram að hún hafi sængað hjá Trump árið 2006, skömmu eftir að eiginkona hans Melania Trump fæddi Baron Trump, son þeirra.

Trump þvertekur fyrir að það sé rétt en hann og starfsmenn hans hafa hins vegar viðurkennt að hafa greitt Daniels 130 þúsund dali skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016. Þeir segja það þó ekkert koma ásökunum Daniels við.

Trump og Daniels hafa höfðað ýmis mál gegn hvoru öðru. Trump hefur sakað Daniels um að brjóta gegn þagnarsamkomulagi og hún hefur sakað hann um meiðyrði.


Tengdar fréttir

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Rudy Giuliani segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michel Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×