Enski boltinn

Wenger lauk störfum með nýju meti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wenger kveður frá John Smith's vellinum í Huddersfield.
Wenger kveður frá John Smith's vellinum í Huddersfield. vísir/getty
Arsene Wenger stýrði Arsenal í síðasta skipti í dag. Frakkinn kvaddi félagið eftir 22 ár með því að setja nýtt met.

Arsenal endaði tímabilið á sigri á Huddersfield á útivelli, Pierre-Emerick Aubameyang skoraði eina mark leiksins seint í fyrri hálfleik eftir fyrirgjöf Aaron Ramsey inn í teiginn.

Sigurinn þýddi það að Wenger hefur nú sótt sigur með Arsenal á 48 mismunandi leikvanga í ensku úrvalsdeildinni, sem er nýtt met.

Wenger var áður jafn Sir Alex Ferguson í sigrum á 47 mismunandi völlum en gerði einum betur.

Wenger yfirgefur Arsenal með 57 prósenta sigurhlutfall í úrvalsdeildinni, vann 476 leiki af þeim 828 sem hann stýrði liðinu í. Hann var að sjálfsögðu maðurinn í brúnni þegar Arsenal átti ótrúlega tímabilið veturinn 2003-04 og fór ósigrað í gegnum alla 38 leiki deildarinnar. Wenger hefur aðeins tapað 199 leikjum í úrvalsdeildinni og 266 í öllum keppnum á þessum 22 árum sem hann stýrði Arsenal.

Hvað tekur nú við hefur ekki verið gefið út, hvorki hjá Wenger né Arsenal, en sögusagnirnar eru þó ýmsar um framtíð Wengers sem og mögulega arftaka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×