Fótbolti

Hrósar Alberti en Inter þarf að safna fyrir honum

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson er í sigti stórliða eftir magnaða leiktíð með Genoa í vetur.
Albert Guðmundsson er í sigti stórliða eftir magnaða leiktíð með Genoa í vetur. Getty/Nicolo Campo

Nýkrýndir Ítalíumeistarar Inter eru með Albert Guðmundsson í sigtinu og stjórnandi hjá félaginu viðurkennir áhuga. Inter gæti hins vegar þurft að ná góðri sölu til að hafa efni á Alberti.

Ítalska sjónvarpsstöðin Sky Sport fjallaði um möguleik leikmannakaup Inter og segir að félagið vilji fá markvörð, varnarmann og sóknarmann fyrir næstu leiktíð.

Félagið hefur þegar tryggt sér Mehdi Taremi frá Porto en vill annan sóknarmann og horfir þar helst til tveggja manna; Alberts hjá Genoa og Joshua Zirkzee hjá Bologna. Albert hefur ítrekað verið orðaður við Inter síðustu mánuði.

„Joshua Zirkzee og Albert Guðmundsson eru tveir hágæðaleikmenn en það þýðir ekki endilega að við munum kaupa þá,“ sagði Piero Ausilio, yfirmaður íþróttamála hjá Inter, og bætti við að félagið yrði með fjóra framherja á næstu leiktíð en ekki fimm.

Alexis Sanchez er á förum frá Inter og einnig gæti Marko Arnautovic farið frá félaginu. Það þýðir að pláss er fyrir Albert en Sky segir ljóst að hvorki hann né Zirkzee séu ódýrir.

Sky segir því ljóst að Inter þurfi að selja leikmann fyrir talsvert fé til þess að eiga möguleika á að kaupa annan hvorn þeirra.

Fréttastöðin telur líklegt að Inter sæki sér markvörðinn Bento frá Athletico Paranaense, og sjái hann fyrir sér sem arftaka Yann Sommer þegar fram líði stundir. Félagið vilji einnig varnarmann í sama gæðaflokki og Francesco Acerbi og Stefan de Vrij, sem báðir eru nú komnir vel á fertugsaldurinn, sem smám saman geti unnið sig inn í liðið.

Albert, sem verður 27 ára í sumar, hefur skorað 13 mörk í 31 deildarleik á Ítalíu í vetur. Hann verður á ferðinni með Genoa í kvöld þegar liðið tekur á móti Cagliari í fimmtu síðustu umferð deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×