Erlent

Spennustigið hátt í Jerúsalem

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Palestínumenn áætla að 2700 manns hafi særst í átökum gærdagsins.
Palestínumenn áætla að 2700 manns hafi særst í átökum gærdagsins. Vísir/epa
Búist er við áframhaldandi mótmælum í Jerúsalem í dag, daginn eftir að 55 Palestínumenn létu lífið í átökum við ísraelska hermenn. Dagurinn í dag markar sjötíu ára afmæli þess sem Palestínumenn kalla Nakba, eða Hamfarirnar, þegar þúsundir flúðu frá heimilum sínum við stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

Ætla má að spennustigið næstu sólarhringa verði áfram hátt á Gaza-svæðinu, þar sem þeir sem létust í átökunum í gær verða bornir til grafar í vikunni.

Þúsundir Palestínumanna söfnuðust saman í gærmorgun til að mótmæla opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem. Palestínumenn telja opnun sendiráðsins vera viðurkenningu á yfirráðum Ísraelsmanna yfir borginni en bæði ríkin gera tilkall til borgarinnar sem höfuðborg.

Sjá einnig viðtal Vísis við íbúa í borginni: Blendnar tilfinningar íbúa í Jerúsalem

Palestínskir embættismenn meta það sem svo að ísraelskir her- og lögreglumenn hafi sært um 2.700 í gær - í átökum sem þeir lýsa sem blóðbaði. Fleiri hafa ekki fallið í átökunum á einum degi í Ísrael síðan árið 2014.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, segir ábyrgðina liggja hjá Palestínumönnum. Aðgerðir Ísraelsmanna hafi verið sjálfsvörn gegn gjöreyðingartilburðum Hamas-liða.

Hér að neðan má sjá myndband sem breska ríkisútvarpið tók saman um átökin í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×