Erlent

Skotárásin í Santa Fe: „Ekki nógu hugaður til að fremja sjálfsvíg“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Santa Fe-framhaldsskólanum í dag.
Frá vettvangi í Santa Fe-framhaldsskólanum í dag. Vísir/AFP
Byssumaðurinn sem skaut tíu til bana í framhaldsskóla í Texas í dag heitir Dimitrios Pagourtzis og er sautján ára gamall. Pagourtzis er nemandi við skólann en komið hefur í ljós að byssurnar, sem hann notaði í árásinni, eru í eigu föður hans.

Sjá einnig: Margir taldir af eftir skotárás í skóla í Bandaríkjunum

Pagourtzis framdi ódæðisverkið við byrjun skóladags í Santa Fe-framhaldsskólanum en hann gekk inn í myndlistartíma og hóf þar skothríð skömmu fyrir klukkan átta í morgun að staðartíma. Vitni segja kennara hafa komið brunavarnarkerfi skólans af stað til að gera nemendum og starfsfólki viðvart um hættuna sem var á ferðum.

Dmitrios Pagourtzis birti þessar myndir af sér á samfélagsmiðlum.Vísir/AFP
Þá hefur komið fram að vopnin, sem hinn sautján ára Pagourtzis notaði í árásinni, hafi verið í eigu föður hans sem hafði tilskilin leyfi fyrir notkun þeirra. Um var að ræða haglabyssu og skammbyssu.

Lögreglustjóri umdæmisins sagði enn fremur að „nokkrar tegundir af sprengjum“ hefðu fundist í skólanum og í grennd við hann. Í frétt CBS kemur fram að lögregla leiti enn að sprengjum í nágrenni skólans og þá var gerð húsleit á heimili árásarmannsins.

Gregg Abbott, ríkisstjóri Texas, vottaði fjölskyldum fórnarlamba árásarinnar samúð sína í dag. Þá sagði hann árásarmanninn hafa gefið sig fram við lögreglu vegna þess að hann „var ekki nógu hugaður til að fremja sjálfsvíg.“ Pagourtzis er nú í haldi lögreglu og þá var annar maður einnig handtekinn vegna árásarinnar en sá hefur ekki verið nafngreindur.

Í frétt AP-fréttastofunnar kemur fram að árásarmaðurinn hafi birt mynd af sér á Facebook þar sem hann klæðist bol með áletruninni „Fæddur til að drepa“ (e. Born to Kill). Þá hafa skólafélagar árásarmannsins lýst honum sem „hljóðlátum“ og einhverjir hafa sagt hann áhugasaman um byssur.

Í febrúar síðastliðnum skaut byssumaður sautján til bana í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland í Flórída-ríki. Emma González, nemandi við skólann sem hefur orðið eitt helsta andlit baráttu fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum eftir árásina í Parkland, ávarpaði nemendur Santa Fe-framhaldsskólans á Twitter-reikningi sínum í dag. „Þið áttuð þetta ekki skilið,“ skrifaði González meðal annars.



Þá vottaði Donald Trump Bandaríkjaforseti nemendum í Santa Fe samúð sína á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

Frétt Stöðvar 2 um árásina, sem sýnd var í fréttatíma kvöldsins, má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Leyfa sér um að efast að Trump hefði hlaupið inn í skólann

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt því fram á dögunum að hann hefði hlaupið inn í Stoneman Douglas-skólann í Flórída hefði hann verið á staðnum þegar mannskæð skotárás var framin þar fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×