Erlent

Spænska lögreglan gerði falsaða ungbarnamjólk upptæka

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Fölsuðu vörurnar líktu eftir þekktum vörumerkjum.
Fölsuðu vörurnar líktu eftir þekktum vörumerkjum. Vísir / AFP
Spænska lögreglan hefur gert upptæk átta tonn af ólöglegu mjólkurdufti, ætlað ungabörnum, í Girona á Spáni. Óprúttnir aðilar höfðu þar komið upp verksmiðju og hafið framleiðslu á mjólkurduftinu.

Starfsemin uppgötvaðist í kjölfar ábendingar frá Europol. Starfsemi samskonar verksmiðju hafði þegar verið stöðvuð í Póllandi en í aðgerð pólskra lögregluyfirvalda náðist enginn hinna seku. Vaknaði í kjölfarið grunur um að starfsemin hafði verið flutt annað.

Fjórir menn voru handteknir í aðgerðum spænsku lögreglunnar, allir pólskir ríkisborgarar. Var einn þeirra skráður mjög hættulegur í gagnagrunnum lögreglunnar vegna glæpa sem hann hefur framið í heimalandi sínu. Þrír hinna handteknu hafa áður setið í fangelsi

Þegar lögreglan kom á staðinn var varan komin á vörubretti og tilbúin til sendingar. Vörurnar voru merktar þekktum vörumerkjum í gerð barnamjólkurdufts. Ekki kemur þó fram í tilkynningu spænsku lögreglunnar nákvæmlega um hvaða vörumerki ræðir.

Ekki er talið að alvarleg heilsuvá hafi stafað af mjólkinni. Hana skorti þó nauðsynleg næringarefni og var framleidd við aðstæður sem uppfylltu ekki þær hreinlætiskröfur sem gerðar eru til framleiðslu af þessu tagi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×