Erlent

Um­fjöllun um Downs á Ís­landi leiddi til umdeilds frum­varps um fóstur­eyðingar í Pennsylvania

Samúel Karl Ólason skrifar
Fóstureyðingar hafa lengi verið mikið deiluefni í Bandaríkjunum.
Fóstureyðingar hafa lengi verið mikið deiluefni í Bandaríkjunum. Vísir/Getty

Fulltrúadeild þings Pennsylvania í Bandaríkjunum hefur samþykkt lagafrumvarp sem meinar verðandi mæðrum að fara í fóstureyðingu sem byggir á þeirri vitneskju að fóstrið hafi greinst með downs-heilkenni. Lagafrumvarp þetta á rætur sínar að rekja til umfjöllunar bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS um Downs-heilkennið hér á landi og þá staðreynd að nær engin börn fæðist lengur með heilkennið vegna tíðra prófana fyrir litningagalla sem veldur því.



Þegar umfjöllunin var birt í fyrra vakti hún gífurlega athygli og jafnvel bræði.



Sjá einnig: Downs-heilkennið á Íslandi - Segir ekki verið að eyða heilkenninu heldur drepa börn



Flutningsmaður frumvarpsins og forseti þingsins, Repúblikaninn Mike Turzai, segist hafa samið frumvarpið í kjölfar þess að honum „blöskraði“ vegna áðurnefndrar umfjöllunar. Hann líti á málið sem stuðning við fatlaða einstaklinga.



Kate Klunk, stuðningsmaður frumvarpsins, sagði því ætlað að koma í veg fyrir kynbótaaðferðir og þingkonan Judy Ward las upp í þingsal ummæli foreldra barna með Downs-heilkenni og hvernig börn þeirra auðguðu líf foreldranna, samkvæmt umfjöllun The Inquirer.



Lög ríkisins heimila fóstureyðingar upp að allt að 24 vikum en fóstureyðingar vegna kyns fóstursins eru bannaðar.



Samkvæmt Inquirer er framtíð frumvarpsins ekki tryggð. Það fer nú fyrir öldungadeild þings ríkisins og ekki er víst að þar hafi það nægjanlegan stuðning, þó deildin sé leidd af Repúblikönum. Þar að auki hefur ríkisstjóri Pennsylvania, Tom Wolf, sem er Demókrata lýst því yfir að hann sé andstæður frumvarpinu.



Helstu gagnrýnendur frumvarpsins segja það ekki koma að auknum stuðningi við fjölskyldur barna með heilkennið umrædda. Læknasamtök hafa lýst yfir andstöðu við frumvarpið. Þar á meðal eru samtök fæðingalækna í Bandaríkjunum og samtök kvensjúkdómalækna.



Ein kona sem gagnrýnt hefur frumvarpið er móðir barns með Downs-heilkenni. Hún segir það hafa verið ákvörðun hennar og eiginmanns hennar að eyða ekki fóstrinu þegar þau fengu þær upplýsingar að dóttir þeirra væri með heilkennið. Sú ákvörðun væri ekki einhverra stjórnmálamanna að taka.



Þegar umræða um frumvarpið fór fram segja blaðamenn Inquirer að hún hafi að mestu farið fram eins og aðrar umræður um fóstureyðingar í Bandaríkjunum. Repúblikanar hafi margir hverjir lýst því yfir að þeir væru á móti fóstureyðingum almennt og að Demókratar hafi talað um að ríkið eigi engan rétt á því að koma að heilbrigðisákvörðunum kvenna.


Tengdar fréttir

Heimsmet í fósturskimun fyrir Downs-heilkennum

Nánast allar slíkar meðgöngur þar sem Downs-heilkenni greinist enda með fóstureyðingu hér á landi. Lögfræðingur og móðir stúlku með Downs heilkenni segir veikan lagargrundvöll fyrir svo afgerandi framkvæmd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×