Viðskipti erlent

Facebook lætur notendur vita hvort upplýsingum um þá var deilt með hinu umdeilda fyrirtæki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook. Vísir/AFP
87 milljónir af notendum samfélagsmiðilsins Facebook munu á morgun komast að því að upplýsingum um þá var deilt með hinu umdeilda breska fyrirtæki Cambridge Analytica.

Facebook hefur mátt þola mikla gagnrýni upp á síðkastið eftir að í ljós kom að Cambridge Analytica, breskt greiningarfyrirtæki sem vann fyrir forsetaframboð Donalds Trump árið 2016, hafi komist yfir upplýsingar um milljónir notenda Facebook með óheimilum hætti.

Upplýsingar um 87 milljónir notenda var deilt með fyrirtækinu að því er Facebook hefur greint frá. Mikill meirihluti þeirra er frá Bandaríkjunum. Munu þessir notendur allir fá skilaboð með upplýsingum um að Cambridge Analytica hafi komist yfir gögn um þá.

Þá munu allir notendur Facebook, sem eru um 2,2 milljarðar um allan heim, fá tilkynningu þar sem hægt er að skoða hvaða smáforrit hafa aðgang að Facebook-reikningi viðkomandi notanda og hvaða upplýsingum sé deilt með þeim.

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, hefur verið boðaður fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í vikunni til þess að svara fyrir aðgerðir Facebook í tengslum við málið.


Tengdar fréttir

Þetta er það sem Google og Facebook vita um þig

Þar til fyrir um viku taldi ég mig nokkuð vel upplýsta um það hversu miklum upplýsingum Facebook og Google væru að safna og hefðu um mig. Svo las ég greinina Are You Ready? Here is all the data Facebook and Google have on you.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×