Erlent

Birta áður óséð viðtal við O.J. um morðið á Nicole

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
O.J. Simpson var sýknaður af ákæru um að hafa myrt Nicole Brown Simpson og Ron Goldman.
O.J. Simpson var sýknaður af ákæru um að hafa myrt Nicole Brown Simpson og Ron Goldman. Vísir/Getty
Bandaríska sjónvarpsstöðin Fox birti í gær ítarlegt viðtal við O.J. Simpson sem tekið var upp árið 2006. Í viðtalinu ræðir Simpson um morðin á Nicole Brown Simpson og Ron Goldman, eitt frægasta sakamál allra tíma. O.J. var árið 1995 sýknaður af ákæru um að hafa myrt þau.

Viðtalið var tekið upp sem hluti af kynningarefni fyrir bók hans, hina umdeildu If I did it, eða Ef ég hefði gert það, sem kynnt var sama ár og innihélt ímyndaðar lýsingar á því hvernig Simpson hefði framið morðin, hefði hann gert það. Nicole var fyrrverandi eiginkona O.J.

Í viðtalinu fer hann yfir aðdraganda morðanna, morðin sjálf og eftirmála þeirra á ítarlegan hátt. Ítrekar hann þó aftur og aftur í viðtalinu að lýsingarnar séu ímyndaðar. Viðtalið hefur vakið mikla athygli vestanhafs og segir Washington Post meðal annars  í fyrirsögn að O.J. hafi játað á sig morðin, þó á ímyndaðan hátt.



Í viðtalinu segir Simpson að hann hafi farið að heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar þann 12. júní 1994, ásamt félaga sínum Charlie. Skömmu eftir komuna brutust út átök á milli O.J. og Goldman.

„Ég man að ég tók hnífinn. Ég man eftir því, ég tók hnífinn af Charlie. Eftir það man ég ekki mikið nema að ég er standandi þarna með alls konar í kringum mig,“ sagði O.J.

„Alls konar hvað?“ var hann þá spurður.

„Blóð og alls konar,“ svaraði O.J. til baka áður en hann fór að hlæja og sagði. „Mér finnst vont að segja það en þetta er allt ímyndað.“

Einnig er fjallað um viðtalið á vef New York Times og segir þar að þrátt fyrir að O.J. haldi sig að mestu leyti við þær ímynduðu lýsingar og skýringar sem komi fram í bókinni umdeildu, þá líti lýsing hans í viðtalinu á morðinu ekki út fyrir að vera ímynduð.

Undir þetta tekur Christopher Darden, einn af saksóknurunum sem sótti O.J. til saka á sínum tíma. Var hann beðinn um að leggja sitt mat á viðtalið. Telur hann að í viðtalinu hafi O.J. játað á sig morðin.

„Ég tel að hann hafi játað á sig morð,“ sagði Darden. „Hann er að reyna að segja að þetta sé ímyndað en hann segir alltaf „Ég“, „ég gerði þetta“,„ mér leið svona“, „ég sá þetta“. Þetta er ekki ímyndun, þetta er raunveruleikinn.“


Tengdar fréttir

Ótrúleg ævi O.J. Simpson

Árið 1994 var O.J. Simpson ákærður fyrir morðin á Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman. Fallið var hátt fyrir einn dáðasta íþróttamann Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×