Erlent

Tengdadóttir Trump sækir um skilnað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vanessa Trump ásamt Donald Trump yngri
Vanessa Trump ásamt Donald Trump yngri Vísir/Getty
Eiginkona Donald Trumps yngri, elsta sonar Bandaríkjaforseta, hefur farið fram á skilnað ef marka má fjölmiðla vestanhafs.

Vanessa Trump, áður Vanessa Haydon, giftist inn í Trump-fjölskylduna árið 2005 og saman eiga þau Donald yngri 5 börn.

„Eftir 12 ára hjónaband höfum við ákveðið að láta leiðir skilja,“ er haft eftir parinu í tilkynningu sem birtist á vefsíðunni Page Six. „Við biðjum um næði meðan þetta gengur yfir.“ Fleiri upplýsingar hafa ekki fengist frá parinu. 

Þrátt fyrir að yfirlýsingin sé send í nafni þeirra beggja þykir augljóst að skilnaðurinn sé að frumkvæði Vanessu.

Bandarískir miðlar halda því jafnframt fram að um svokallaðan „óvefengjanlegan skilnað“ sé að ræða. Samkvæmt bandarískum réttarvenjum þýðir það að forræði yfir börnunum og skipting eigna þeirra hjóna sé tekin af borðinu í skilnaðarferlinu.

Fyrr á þessu ári rötuðu hjónabandsvandræði þeirra Donalds yngri og Vanessu í fjölmiðla. Voru þau ekki síst sögð stafa af tíðum ferðalögum Donalds í starfi sínu og „ást hans á samfélagsmiðlum.“ Þá hefur því jafnframt verið haldið fram að áreitnin sem fylgdi því að Donald Trump eldri tók við embætti forseta, og réði son sinn sem einn sinna helstu ráðgjafa, hafi einnig haft mikil áhrif á sambandið.

Þá bætti ekki úr skák að Vanessu var sent hvítt duft í pósti um miðjan febrúar. Varð hún að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi fyrir vikið. Atvikið er sagt hafa tekið mikið á hana og ennfremur ýtt undir þá skoðun hennar að lífið sem hjónabandinu fylgdi væri ekki fyrir hana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×