Erlent

Matteo Renzi segir af sér

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Stjórnarkreppa er yfirvofandi á Ítalíu en þingkosningarnar sem fram fóru í landinu í gær skiluðu engum augljósum niðurstöðum. Þá hefur Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi ítalska demókrataflokksins, sagt af sér formennsku vegna lakrar frammistöðu flokksins í kosningunum. Erfiðar stjórnarmyndunarviðræður eru framundan sem gætu tekið einhverjar vikur.

Svo virðast sem hægri- og þjóðernisflokkar hafi notið mestrar hylli í þingkosningunum í gær og hafa leiðtogar róttækra flokka lýst yfir áhuga á að mynda stjórn. Hægriflokkabandalag fyrrverandi forsætisráðherrans Silvio Berlusconi hlýtur flest þingsæti að öllum líkindum en Fimmstjörnuhreyfingin svokallaða, er hins vegar stærsti einstaki flokkurinn að loknum kosningunum með rúmlega 30% atkvæða.

„Kosningarnar eru sigur fyrir Fimmstjörnuhreyfinguna. Við erum sigurvegarar kosninganna,“ segir Luigi Di Maio, leiðtogi hreyfingarinnar. Í svipaðan streng tekur leiðtogi hægriflokksins Lega, en báðir hafa flokkarnir lýst yfir nokkurri andstöðu við Evrópusambandið.

„Þetta er ótrúlegur sigur sem fyllir okkur stolti, gleði og kallar á ábyrgð því milljónir Ítala hafa beðið okkur að taka völdin á ný í þessu landi,“ segir Matteo Salvini, leiðtogi Lega, sem mátti góðu gengi fagna í kosningunum. Ef illa gengur að mynda stjórn er ekki útilokað að blása þurfi til nýrra kosninga en ekki þykir líklegt að nýjar kosningar skili endilega skýrari niðurstöðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×