Erlent

Trump reiður eftir að Sanders viður­kenndi til­vist þagnar­sam­komu­lags

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels.
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels. Vísir/Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er reiður Sarah Huckabee Sanders, talskonu Hvíta hússins, eftir að hún virtist óvart viðurkenna í gær að Trump hefði gert þagnarsamkomulag við klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford. Leikkonan höfðaði mál gegn forsetanum í vikunni og segir þagnarsamkomulag þeirra dautt og ómerkt vegna þess að Trump hafi ekki skrifað undir það.

Fréttir af samkomulaginu voru fyrirferðamiklar í upphafi árs en lögmaður Bandaríkjaforseta, Michael Cohen, er sagður hafa greitt Clifford 130 þúsund dali, skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016, svo hún segði ekki frá kynlífi hennar með forsetanum árið 2006. Trump og Melania Trump gengu í það heilaga árið 2005 og á framhjáhaldið að hafa átt sér stað skömmu eftir að Melania fæddi Baron Trump, son þeirra hjóna.

Hvíta húsið hefur ætíð þvertekið fyrir að þetta sé satt.

Cohen viðurkenndi að hafa greitt Daniels en sagðist hafa gert það úr eigin vasa og þvertók fyrir að það væri vegna umrædds samkomulags. Tilefni ummæla Cohen var að yfirkjörstjórn Bandaríkjanna og Dómsmálaráðuneytið hafa verið beðin um að kanna hvort að greiðslan hafi komið úr kosningasjóði Trump og hvort hún hafi verið ólögleg.

Hins vegar sagði Sanders við blaðamenn í gær ásakanirnar um samkomulagið væru ósannar en bætti við að Trump hefði unnið málið gegn Daniels og virtist hún þar með staðfesta að þagnarsamkomulagið væri raunverulegt. Rétt á eftir því að hafa sagt þetta vera ósannar ásakanir. Samkvæmt heimildum CNN er Trump verulega reiður vegna þessa.

Lögmaður Daniels segir að Trump hafi ekki unnið málið. Í lögsókn Daniels segir að framhjáhaldið hafi haldið áfram langt á árið 2007 og að Daniels eigi „skilaboð og/eða myndir“ því til sönnunar.

Klámmyndaleikkonan er ekki sú eina sem heldur því fram að hafa gert þagnarsamkomulag við Trump.

Playboy-fyrirsætan Karen McDougal sagði New Yorker í síðasta mánuði að í ágúst 2016 hefði hún fengið 150 þúsund dali frá fjölmiðlafyrirtækinu American Media Inc. fyrir sögu hennar af níu mánaða sambandi hennar og Trump. Sagan birtist þó aldrei.

Í umfjöllun New Yorker segir að framkvæmdastjóri AMI, David Pecker, sé vinur Trump og hann hafi reglulega keypt réttinn af sögum fólks til þess að koma í veg fyrir birtingu þeirra.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.