Erlent

Lögmaður Trump segist hafa borgað klámmyndaleikkonu úr eigin vasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels.
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels. Vísir/Getty
Michael Cohen, einn af lögmönnum Donald Trump, viðurkennir að hafa greitt klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels 130 þúsund dali. Hann segir þá greiðslu hafa komið úr eigin vasa og tengist forsetanum og forsetaframboði hans ekki á nokkurn hátt. Um „einkaviðskipti“ hafi verið að ræða. Áður hafði hann þvertekið fyrir að nokkur greiðsla hefði átt sér stað.

Stormy Daniels, sem heitir í raun Stefanie Clifford, hefur haldið því fram að hún hafi átt í ástarsambandi við Donald Trump árið 2006. Ári eftir að hann kvæntist Melaniu Trump og nokkrum mánuðum eftir að hún fæddi son þeirra.

Fregnir bárust af því í síðasta mánuði að Cohen hefði greitt Clifford 130 þúsund dali í aðdraganda forsetakosninganna 2016 í skiptum fyrir þögn hennar. Hún mun þá hafa átt í viðræðum við forsvarsmenn ABC sjónvarpsstöðvarinnar um að koma fram og segja frá framhjáhaldinu.

Sjá einnig: Lögmaður Trump sagður hafa greitt klámmyndaleikkonu fyrir þögn



Tilefni ummæla Cohen er að yfirkjörstjórn Bandaríkjanna og Dómsmálaráðuneytið hafa verið beðin um að kanna hvort að greiðslan hafi komið úr kosningasjóði Trump og hvort hún hafi verið ólögleg.



„Í einkaviðskiptum árið 2016, notaði ég eigið fé mitt til að greiða Stephanie Clifford 130 þúsund dali. Hvort fyrirtæki Trump né framboð hans kom að viðskiptum mínum við Clifford og hvorki Trump samtökin né framboð Trump kom að viðskiptunum við Clifford, né endurgreiddu mér, beint né óbeint,“ er haft eftir Cohen á vef Financial Times.



Þá segir hann greiðsluna hafa verið löglega og hafi ekki snúið að forsetaframboði Trump.

Þrátt fyrir að Clifford hafi áður sagt frá framhjáhaldinu segir hún nú að það hafi aldrei átt sér stað. Þá tekur Cohen ekki fram í yfirlýsingu sinni af hverju hann greiddi henni upphæð sem samsvarar um þrettán milljónum króna. Sömuleiðis tekur hann ekki fram að Trump sjálfur hafi ekki endurgreitt honum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×