Viðskipti innlent

Líklegt að sameinað fyrirtæki losi um eignir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Finnur Árnason er forstjóri Haga.
Finnur Árnason er forstjóri Haga. Vísir/Eyþór
Sérfræðingur í samkeppnisrétti telur að verði af sameiningu Haga, Olís og fasteignafélagsins DGV þurfi hið nýja fyrirtæki mögulega að sæta skilyrðum um að losa sig við eignir.

Hagar drógu í gær samrunatilkynningu vegna fyrirhugaðrar sameiningar fyrirtækjanna þriggja til baka, en mun senda inn nýja samruna­tilkynningu innan skamms.

„Mig grunar að Hagar hafi séð af viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins að skilyrði samrunans yrðu umfangsmikil og þung í utanumhaldi. Í stað þess að fara í samningaviðræður um þetta þá hafi þeir talið vænlegra að endurhanna samrunann og hafa hann ekki jafn yfirgripsmikinn,“ segir Eggert B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur á sviði samkeppnisréttar.

Mögulega þurfi Olís og N1 að skipta upp Olíudreifingu. Eggert segir að skoða þurfi þennan fyrrnefnda samruna í samhengi við annan samruna sem stendur fyrir dyrum. Það er samruni olíufélagsins N1 og Festar, sem rekur meðal annars Krónuna og Nóatún. Þar sé strúktúrinn sá sami og komi til með að hafa áhrif á markaðsstöðuna.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir fyrirhugaðan samruna N1 og Festar þó ekki hafa spilað inn í ákvörðunina um að draga samrunatilkynninguna til baka. „Við teljum okkur geta boðið heildstæð skilyrði sem séu til þess fallin að leysa málið. Því er þessi leið farin.“


Tengdar fréttir

Á von á umfangsmiklum skilyrðum

Sérfræðingur í samkeppnisrétti telur líklegt að Samkeppniseftirlitið samþykki kaup Haga á Olís. Hins vegar vilji yfirvöld sennilega setja kaupunum skilyrði í því augnamiði að ýta úr vegi aðgangshindrunum að eldsneytismarkaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×