Viðskipti innlent

Segist beittur blekkingum og þvingunum af Dalsmönnum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Björn Ingi Hrafnsson hefur kært nokkra forsvarsmenn eignarhaldsfélagsins Dalsins til héraðssaksóknara.
Björn Ingi Hrafnsson hefur kært nokkra forsvarsmenn eignarhaldsfélagsins Dalsins til héraðssaksóknara. Vísir
Björn Ingi Hrafnsson hefur ásamt viðskiptafélaga sínum, Arnari Ægissyni, kært forsvarsmenn Dalsins ehf., þá Árna Harðarson og Halldór Kristmannsson, og lögmann þeirra, Bjarka Diego, til héraðssaksóknara fyrir fjársvik, skilasvik og skjalabrot. Í kærunni er því lýst hvernig hinir kærðu hafi blekkt Björn Inga og Arnar til að undirrita samkomulag um riftun á kaupsamningi um alla hluti í Birtingi, undir því yfirskini að um málamyndagerning væri að ræða, en svo notað umrætt skjal til að yfirtaka kaupsamning um Birting og þann hlut, sem Pressan ehf. hafði þegar greitt fyrir, án endurgjalds með því að beita blekkingum og rangfærslu skjala, þrátt fyrir að gjaldþrot Pressunnar væri yfirvofandi og óumflýjanlegt.

Í kærunni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er því lýst hvernig sú hugmynd hafi vaknað hjá Árna Harðarsyni að gera málamyndasamkomulag um riftun á kaupsamningi um Birting sem geymt yrði á skrifstofu Bjarka Diego lögmanns, í þeim eina tilgangi að sýna kröfuhöfum Pressunnar fram á að Pressan ætti ekki þessa eign og semja yrði um skuldir. Aldrei hafi staðið til að riftunarskjalinu yrði beitt í lögskiptum og eru tölvupóstsamskipti milli kærenda og hinna kærðu rakin í kærunni til að vitnis um það. Í svari Árna Harðarsonar við tölvupósti Björns Inga, þar sem riftunarskjalið er til umræðu, segir til dæmis:

„Eins og við ræddum áðan þá geymir Bjarki skjalið en við gætum þurft að sýna það ákveðnum aðilum og gerum það þá á skrifstofu BBA en við skulum ekki senda þetta á milli í meilum.“

Umræddur póstur var sendur 8. maí 2017. Tíu dögum síðar var starfsmönnum Pressunnar tilkynnt að kaupin hefðu gengið til baka og þann 31. maí var tilkynnt á starfsmannafundi Birtings að Dalurinn væri orðinn eigandi Birtings að öllu leyti.

Sjá einnig: Kaupin á Pressunni komu Dalsmönnum í opna skjöldu

Árni, Halldór og Bjarki eru einnig kærðir fyrir umboðssvik, fjársvik og skjalafals með því að hafa, eftir að kaupsamningnum var rift og um leið fallið frá lánveitingu Dalsins til Pressunnar, fargað lánssamningnum en ekki þeim tryggingabréfum sem gefin voru út af DV ehf. og Vefpressunni ehf. til tryggingar á efndum lánssamningsins. Þeir hafi blekkt Björn Inga og þóst hafa fargað tryggingabréfunum en í stað þess látið þinglýsa þeim í lausafjárbók Vefpressunnar, þrátt fyrir að lánið sem þau áttu að tryggja hafi aldrei verið veitt.

Þá er Árni Harðarson einnig kærður fyrir fjárkúgun eða aðra ólögmæta þvingun með því að hafa þvingað Björn Inga til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir 50 milljóna láni Aziq fjárfestinga til Kringluturnsins. Um það hafi verið gerður nýr lánssamningur þar sem Dalurinn var lánveitandi en Björn Ingi þvingaður til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu sem skilyrði fyrir því að ofangreindum tryggingabréfum yrði aflétt, þrátt fyrir að Björn Ingi tengdist hvorki umræddu láni né tryggingabréfunum með nokkrum hætti.

Mikil ólga hefur umlukið eignarhald DV, Vefpressunnar og Birtings undanfarin misseri og kærur ganga á víxl en Fréttablaðið sagði frá því skömmu fyrir jól að forsvarsmenn Dalsins hefðu kært Björn Inga Hrafnsson til héraðssaksóknara fyrir fjárdrátt. Ekki náðist í hina kærðu forsvarsmenn Dalsins við vinnslu fréttarinnar.




Tengdar fréttir

Ómar segir fullyrðingar fráfarandi stjórnar Pressunnar ósannar

Ómar R. Valdimarsson, nýkjörinn formaður stjórnar Pressunnar, segir ásakanir Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar um að ný stjórn sé ekki skráð í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra ekki standast skoðun. Breytingarnar hafi verið skráðar samdægurs og skiptin fóru í gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×