Erlent

Starfsmenn Rauða krossins greiddu fyrir kynlífsþjónustu

Kjartan Kjartansson skrifar
Alls starfa um 17.000 manns fyri Alþjóðaráð Rauða krossins um allan heim. Við innri endurskoðun kom 21 tilfelli í ljós þar sem starfsmenn höfðu látið af störfum vegna kynferðislegs misferlis.
Alls starfa um 17.000 manns fyri Alþjóðaráð Rauða krossins um allan heim. Við innri endurskoðun kom 21 tilfelli í ljós þar sem starfsmenn höfðu látið af störfum vegna kynferðislegs misferlis. Vísir/AFP
Alþjóðaráð Rauða krossins segir að 21 starfsmaður hafi hætt störfum fyrir hjálparsamtökin vegna kynferðislegs misferlis undanfarin þrjú ár. Starfsmennirnir greiddu fyrir kynlífsþjónustu og sögðu ýmist af sér eða voru reknir.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Yves Daccord, framkvæmdastjóra Rauða krossins, að nýlegar uppljóstranir um kynferðislega misnotkun og misbeitingu starfsmanna samtakanna hafi orðið til þess að þau hafi látið gera innri rannsókn í eigin ranni.

Siðareglur samtakanna hafi bannað starfsmönnum sérstaklega að greiða fyrir kynlífsþjónustu frá árinu 2006.

Nýlega var greint frá því að bresku hjálparsamtökin Oxfam hefðu hylmt yfir ásakanir um kynferðislegt misferli starfsmanna á Haítí. Þá hefur verið sagt frá því að sex starfsmenn eða samstarfsmenn samtakanna Plan International hafi gerst sekir um kynferðislega misnotkun.

Tuttugu og tvö hjálparsamtök gáfu út sameiginlega afsökunarbeiðni í gær á að hafa brugðist í meðhöndlun sinni á ásökunum um kynferðislegt misferli starfsmanna, þar á meðal voru Oxfam og Save the Children. Fyrrverandi framkvæmdastjóri síðarnefndu samtakanna sagði af sér sem aðstoðarforstjóri Unicef í vikunni vegna ásakana um óviðeigandi hegðun í garð ungra kvenna þegar hann starfaði fyrir hjálparsamtökin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×