Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Fram 37-31| Fjölnir heldur í vonina

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/eyþór
Fjölnir van sterkan sigur á Fram í Dalhúsum í kvöld, 6 marka sigur, 37-31. Heimamenn áttu leikinn frá fyrstu mínútu, staðan í hálfleik 17-12. 

Fjölnir byrjaði leikinn vel og komst í 5-1. Á 7 mínútu fékk Andri Berg Haraldsson, varnarmaður Fjölnis, að líta rauða spjaldið og var þá hætt við því að Fjölnir myndi detta niður en svo var ekki. Fjölnir hélt áfram að leiða leikinn en Fram náði áhlaupi á þá þegar líða tók á fyrri hálfleikinn og jöfnuðu í stöðunni 9-9. Fjölnir svaraði því með 6-1 kafla og leiddu þegar flautað var til hálfleiks með 5 mörkum 17-12. 

Í síðari hálfleik sá Fram aldrei til sólar, Fjölnir hleypti þeim aldrei niður fyrir 5 mörk. Fjölnir hefur átt erfitt með að klára leiki á tímabilinu, hafa oft átt góða leiki en tapað þeim niður á síðustu 10 mínútunum en það var augljóst að það átti ekki að gerast í dag því leikmenn hættu ekki, þrátt fyrir yfirburði, fyrr en flautað var til leiks loka. 6 marka sigur staðreynd, 37-31, fyllilega verðskuldaður sigur heimamanna. 

Fjölnir á enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, liðið þarf að vinna síðustu tvo leiki sína en þarf þó einnig að treysta á að Grótta tapi stigum í loka leikjunum. Fram er enn í 9 sætinu með 12 stig og heldur áfram í vonina að þeir nái að taka sætið af ÍR í úrslitakeppninni. Þær verða spennandi loka umferðirnar í Olís deildinni. 



Af hverju vann Fjölnir

Fjölnir voru frábærir í dag, allt frá fyrstu mínútu áttu þeir leikinn. Það sást vel að um úrslitaleik væri að ræða hjá þeim og misstu þeir aldrei haus. Fjölnir hefur oft tapað leikjum á síðustu mínútunum í vetur og voru þetta kærkomin stig fyrir þá sem með sigrinum eiga ennþá möguleika á að halda sér uppi. 



Hvað gekk illa

Fram mætti hreinlega ekki til leiks í kvöld, vörnin var slök og gerði það Viktori Gísla erfitt fyrir í markinu. Sóknin ágæt á köflum en heilt yfir var þetta afar slakur leikur hjá Fram.  



Hverjir stóðu upp úr 

Breki Dagsson var geggjaður í fyrri hálfleik, skoraði 9 mörk og var allt í öllu í sóknarleik Fjölnis, Fram lokaði aðeins á hann í seinni hálfleik en hann endaði með 11 mörk í dag. Í seinni hálfleik tók Kristján Örn Kristjánsson við keflinu og skoraði hann 10 mörk í leiknum. Þá átti Ingvar Kristinn Guðmundsson góða innkomu í mark Fjölnismanna. 

Hjá Fram var enginn sem stóð beint upp úr en Arnar Birkir var þó atkvæðamestur með 8 mörk. 



Hvað er framundan

Það eru úrslitaleikir framundan hjá báðum liðum en í næstu umferð mætir Fjölnir ógnasterku liði Hauka, erfiður leikur sem Fjölnir eiga þar. Fram á ÍR í næstu umferð, úrslitaleikur í breiðholtinu. 

 

 

 

Sveinn: Þetta var fyrir stuðningsmennina 

Sveinn Þorgeirsson, leikmaður Fjölnis, þakkaði stuðningsmönnum stigin tvö í kvöld

„Fjölnisfólkið sem hefur mætt og haft trú á okkur í allan vetur, þau styðja okkur í gegnum súrt og sætt, þessi sigur var fyrir þau“ sagði Sveinn sem var að vonum ánægður með leikinn 

„Við höfum verið að vinna vel í okkur, sérstkalega eftir áramót. Það eru margir leikir þar sem við erum að spila vel á löngum köflum en ekki náð að skila stigum í hús, sem er eins svekkjandi og það getur orðið. Við höfum bara verið að hamra á því að hafa trú á okkur því við erum ógeðslega góðir þegar við leggjum okkur alla fram.“

„Til að vinna leiki þá þurfum við varða bolta, Ingvar (Ingvar Kristinn Guðmundsson) var flottur í dag og við fengum loksins smá samspil milli varnar og markvörslu. Það eru hörku íþróttamenn í þessum hópi, þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið og við höfum fengið að finna fyrir því. Það var sárt að klára ekki leikinn gegn Aftureldingu í síðustu umferð og því bara jákvætt að það var stutt milli leikja og við fengum að svara fyrir það í kvöld“

„Við ætlum að vinna síðustu tvo síðustu leiki“ sagði Sveinn fullur sjálfstraust fyrir síðustu tvo leiki liðsins, en þeir þurfa að vinna þá ásamt því að treysta að það að Grótta tapi stigum svo þeir haldi sér uppi í Olís deildinni 

„Við ætlum ekki að hugsa um aðra en okkur, við eigum þessa tvo leiki sem við getum klárað, það er bara allt sem við getum gert og ég hlakka mikið til næstu tveggja vikna. Ef Grótta spilar vel og heldur sér uppi þá er það vel gert hjá þeim, ég ætla allavega ekki að einbeita mér að því hvað þeir gera.“ 

Guðmundur: Svona spilar maður ekki handbolta

„Við mættum ekki til leiks í kvöld“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari 

„Leikmenn voru andlega fjarverandi alveg frá a-ö. Ég sá það bara eftir fimm mínútur, það var alveg sama hvern ég setti inná eða hvaða vörn ég stillti uppi, það gekk ekkert. Fjölnir vildi þetta bara meira í dag“ 

„Ég spurði þá inní klefa núna eftir leik hvernig þeir fóru í gegnum daginn, hvernig þeir undirbjuggu sig fyrir þennann leik, því það var líkt og þeir hafi ekki nennt þessu. Við erum búnir að leggja mikla vinnu í þennann leik og þeir meðtóku það ekki.“ sagði Guðmundur allt annað en sáttur með sína menn

„Vörnin var ekki til staðar í leiknum, ekkert við Viktor (Viktor Gísli Hallgrímsson) að sakast í markinu. Það er lítill hornamaður sem nær marki á hávörnina hjá mér, vörnin tekur ekki fráköst, þeir skora þrjú mörk þar sem boltinn er skoppandi inní teig, svona spilar maður ekki handbolta“ segir Guðmundur sem segir Fjölni hafa haft yfirburði á öllum vígstöðvum í kvöld

„Markmaðurinn þeirra var frábær, skytturnar þeirra frábærar, þegar við spilum ekki vörn, spilum ekki sem lið, þá erum við bara svona lélegir. Það var ekki eitt, það var allt. Fjölnir hefði getað verið með þjálfarana sína tvo inná og þeir skorað 7 mörk hvor.“

„Ég er bara svo svekktur útí mína menn, þetta eru úrslitaleikir núna, hver og einn einasti leikur. Núna sogumst við allt í einu niður í fallbaráttu eða getum farið upp, það er allt opið. Af hverju menn mæta ekki tilbúnir til leiks á svona stundu, ég fatta þetta bara ekki.“



Arnar: Við erum ekki hættir

Það var létt yfir Arnari Gunnarssyni, þjálfara Fjölnis, að leik loknum 

„Ég er mjög sáttur, við spiluðum vel og lögðum allt í þetta. Það sýndi sig, við skoruðum 3 mörk þar sem menn eru að kasta sér langt inní teig eftir frákasti, ég er rosalega ánægður með strákana“

„Við vorum áræðnir og grimmir í upphafi og sýndum það að þegar þeir koma til baka og jafna þá svörum við því með 7-2 kafla og förum inní hálfleikinn með góða forystu og náum að halda því í seinni hálfleiknum.“ sagði Arnar sem hafði engar sérstakar áhyggjur í seinni hálfleik þrátt fyrir að liðið hafi oftar en ekki tapað leikjum á loka metrunum

„ég þekki strákana það vel og ég sá að þeir voru komnir í gamla gírinn „núna kemur þetta“ hugsaði ég. Við höfum verið að tapa mikið af stigum á síðustu 10 mínútunum en það þýðir ekki að hugsa það núna, það eru 4 stig eftir og við erum ekki hættir.“

Fjölnir fær Hauka í heimsókn í næstu umferð og þurfa sigur í þeim leik. Haukar er eitt af betri liðum deildarinnar en Arnar hræðist það ekki og býst við hörkuleik í Dalhúsum. 

„Þetta er allt erfitt, það hefur ekkert lið komið hingað og unnið auðveldan sigur og við trúum því að við getum unnið Hauka.“ 

Andri Berg Haraldsson fékk að líta rauða spjaldið eftir að eins 7 mínútna leik, Arnar sá brotið ekki það vel að hann gæti tjáð sig um dóminn

„Ég sá Þorstein Gauta lenda illa, sá brotið ekki, en þetta eru færir dómarar svo þeir hljóta að hafa þetta rétt.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira