Erlent

Ráðherrum og aðstoðarmönnum bannað að sofa saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Barnaby Joyce hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið.
Barnaby Joyce hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Vísir/EPA
Forsætisráðherra Ástralíu hefur lýsti því yfir að hann muni koma til með að banna allt kynlíf milli ráðherra sinna og starfsmanna þeirra.

Afhjúpanir síðustu daga hafa leitt í ljós að Barnaby Joyce, varaforsætisráðherra landsins, hafði átt í ástarsambandi með einum aðstoðarmanni sínum sem yfirmaður hans, Malcolm Turnbull, lýsir sem „grófum dómgreindarbresti.“

Stjórnarandstæðingar hafa kallað eftir afsögn aðstoðarforsætisráðherrans.

Joyce er nú í ótímabundnu leyfi meðan rannsakað er hvort hann hafi brotið siðareglur ráðherra. Hann og forsætisráðherrann eru þó harðir á því að engar reglur, að minnsta kosti ekki núgildandi, hafi verið brotnar í þessu tilfelli.

Forsætisráðherrann sagði þó á blaðamannafundi að hann ætli sér að gjörbylta hinum úrsérgengnu siðareglum enda þurfi ráðherrar að haga sér sómasamlega. „Þeir eiga ekki að sofa hjá aðstoðarmönnum sínum - punktur,“ sagði Turnbull.

Joyce hefur sem aðstoðarforsætisráðherra hlaupið í skarðið fyrir Turnbull þegar annir eru miklar. Hann mun þó ekki fljúga til Bandaríkjanna í næstu viku eins og fyrirhugað var. Hver mun fara fyrir áströlsku sendinefndinni er þó ekki vitað á þessari stundu.

Ástarævintýrið hefur tröllriðið áströlskum fjölmiðlum síðustu daga. Greint var frá því á miðvikudag í síðustu viku að Joyce og fjölmiðlafulltrúinn Vikki Campion væru elskhugar. Aðstoðarforsætisráðherrann hefur verið giftur Natalie Joyce frá árinu 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×