Viðskipti innlent

Færist ofar á lista Forbes og er nú metinn á 185 milljarða

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Björgólfur er eini Íslendingurinn sem komist hefur á lista Forbes yfir milljarðamæringa.
Björgólfur er eini Íslendingurinn sem komist hefur á lista Forbes yfir milljarðamæringa. vísir/gva
Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, tók stökk á milli ára á lista Forbes yfir milljarðamæringa og eru eignir hans nú metnar á 1,8 milljarð Bandaríkjadala, eða rúmlega 185 milljarða króna. Situr hann í 1.161 sæti og er eini Íslendingurinn þar.

Raunar er hann eini Íslendingurinn sem komist hefur á listann nokkurn tímann. Fyrir tíu árum var Björgólfur í 249. sæti listans en í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 þurrkaðist nafn hans út af honum. Í umfjöllun Forbes um Björgólf er höfð eftir honum tilvitnun þar sem hann segir að líkt og flestir þá hafi hann „klúðrað málunum“ í hruninu.

Stóð hann frammi fyrir því að verða persónulega gjaldþrota eða gera samkomulag við kröfuhafa sína. Valdi hann að gera hið síðarnefnda með samkomulagi sem gerði honum kleift að greiða upp skuldir sínar á sama tíma og hann hélt hlut sínum í nokkrum eignum.

Það var síðan árið 2015 að hann komst aftur á milljarðamæringalistann þegar eignir hans voru metnar 1,5 milljarð dala og hefur hann færst ofar á listanum síðan.

Eins og svo oft áður var Bill Gates, stofnandi Microsoft, á toppi listans en eignir hans eru metnar á 86 milljarða dala – um 8.900 milljarðar króna. Í öðru sæti er Warren Buffett, forstjóri Berkshire Hathaway og í því þriðja Jeff Bezos hjá vefverslunarrisanum Amazon.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×