Handbolti

Þórir um mál Noru Mörk: Nógu erfitt fyrir hana að segja mér hvað hafði gerst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk hefur sýnt mikinn styrk í þessu leiðinlega máli.
Nora Mörk hefur sýnt mikinn styrk í þessu leiðinlega máli. Vísir/Getty
Þórir Hergeirsson, íslenski þjálfarinn hjá norska kvennalandsliðinu í handbolta, hefur nú tjáð sig um nýjustu fréttirnar af máli Noru Mörk. Það allt á öðrum endanum í norska handboltasambandinu og það í miðju Evrópumóti karla.

Handboltakonan Nora Mörk hefur nú hótað því að hætta að spila með norska landsliðinu en Þórir vonast til að geta sannfært hana um að halda áfram.  

Nora Mörk segir að norska handboltasambandið hafi reynt að fela þá staðreynd að leikmenn norska karlalandsliðsins voru uppvísir að því að dreifa sín á milli viðkvæmum myndum af Noru Mörku sem hafði verið stolið úr síma hennar.

„Þetta er skelfilega leiðinlegt og hræðilegt að þetta mál sé komið í þessa stöðu,“ sagði Þórir Hergeirsson í samtali við Verdens Gang.

Næstu leikir norska landsliðsins eru í undankeppni næsta Evrópumóts þar sem Noregur mætir Króatíu í tveimur leikjum í mars. Evrópumótið fer síðan fram í Frakklandi í desember.

„Ég er bjartsýnn á að hún haldi áfram með landsliðinu. Við erum að vinna í því,“ sagði Þórir.  





 

Það var mikið áfall fyrir Noru Mörk þegar hún komst að því að leikmenn karlalandsliðsins hafi verið að dreifa á milli sín myndunum af henni.

Vísir/getty
Þórir staðfestir það að norska sambandið hafi fengið að vita af þessu 3. nóvember síðastliðinn. „Ég sendi þessar upplýsingar áfram á framkvæmdastjórann. Ég vil samt ekki ræða það meira. Það þarf að taka á þessu í stjórninni,“ sagði Þórir.

„Ég hef reynt eftir minni bestu getu að styðja við bakið á Noru. Enginn okkar getur vitað hvað hún gekk í gegnum. Það var nógu erfitt fyrir hana að segja mér hvað hafði gerst,“ sagði Þórir.

Þórir hrósar Noru fyrir að klára heimsmeistaramótið þar sem hún varð markahæsti leikmaðurinn og var kosin í úrvalslið mótsins.

„Nora er mjög flott stelpa. Hún er mjög andlega sterk. Það eru ekki margir sem hefðu getað klárað stórmót verandi í hennar stöðu,“ sagði Þórir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×