Handbolti

Halldór: Gríðarlega stoltur af strákunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór Sigfússon ræðir við sína menn.
Halldór Sigfússon ræðir við sína menn. vísir/anton bjarni
Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var bæði stoltur og svekktur eftir þriggja marka sigur liðsins, 26-23, á Tatran Presov. Sigurinn var frábær en dugði FH-ingum ekki til að komast áfram í riðlakeppni EHF-bikarsins.

„Ég er gríðarlega glaður með mína menn. Þeir voru geggjaðir. En ég er gríðarlega svekktur með úrslitin. Þetta fellur á einu marki, í raun á markinu sem var flautað af okkur úti í Slóvakíu,“ sagði Halldór og vísaði til marksins sem dæmt var af Óðni Þór Ríkharðssyni í fyrri leiknum fyrir viku.

„Það þarf að skoða síðustu fimm mínúturnar í þessum leik. Hvernig geturðu verið 45 sekúndur í síðustu sókninni þegar það er verið að spila framliggjandi vörn og það er ekki eitt fríkast dæmt. Ég átta mig ekki á því. Þetta er það sem er að eyðileggja fyrir okkur. Ég ætla ekki að gráta endalaust en það er ýmislegt búið að ganga á hjá okkur í þessari Evrópukeppni. En það sem drepur okkur ekki hlýtur að styrkja okkur.“

FH-ingar lentu 12-16 undir í upphafi seinni hálfleiks. Þá fóru þeir í gang og komu sér í lykilstöðu með frábærum 7-0 kafla.

„Mér fannst við ekki alveg nógu ákveðnir í byrjun seinni hálfleiks. Svo fáum við sterka vörn og Ágúst [Elí Björgvinsson] varði vel á þessum kafla. Að ná 7-0 á móti þessu liði er gríðarlega sterkt. Við settum pressu á þá sem átti að duga,“ sagði Halldór.

„Þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum átti að flauta boltann af þeim þegar hann stóð með hann í höndunum í 4-5 sekúndur og hafði enga möguleika til að senda. En ég er gríðarlega stoltur af strákunum og að vinna þetta lið með þremur mörkum, en jafnframt svakalega svekktur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×