Erlent

Atkvæði verða talin aftur í Hondúras

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnarandstæðingurinn Salvador Nasralla vill meina að brögð hafi verið í tafli.
Stjórnarandstæðingurinn Salvador Nasralla vill meina að brögð hafi verið í tafli. Vísir/AFP
Landskjörstjórn í Hondúras hefur tilkynnt að atkvæði úr 4.753 kjörkössum verði talin aftur. Nærri tveimur vikum eftir forsetakosningarnar í landinu liggur enn ekki fyrir hver verður næsti forseti landsins.

Ríkisstjórn landsins hefur verið sökuð um kosningasvindl og hafa brotist út hörð mótmæli á götum höfuðborgarinnar síðustu daga vegna seinagangsins.

Eftir fyrstu talningu hlaut sitjandi forseti, íhaldsmaðurinn Juan Orlando Hernández, flest atkvæði, eða 43 prósent, en stjórnarandstæðingurinn og sjónvarpsstjarnan, Salvador Nasralla, 41,1 prósent.

Kjörstjórn hefur nú samþykkt að endurtelja atkvæði úr þeim kjörkössum sem bárust á talningarstaði 36 tímum eða lengur eftir að kjörstöðum lokaði. Stuðningsmenn Nasralla vilja meina að átt hafi verið við þau atkvæði til að tryggja endurkjör forsetans.

Nasralla var frambjóðandi Andstöðubandalagsins gegn einræðinu, nýs bandalags stjórnmálaflokka með vinstriflokkinn Libre í broddi fylkingar.

Einungis er kosið í einni umferð í forsetakosningunum í Hondúras og því dugir frambjóðanda einfaldlega að fá flest atkvæði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×