Erlent

Mnangagwa sver embættiseið

Atli Ísleifsson skrifar
Frá embættistöku Emmeron Mnangagwa, vinstra megin á myndinni, í morgun.
Frá embættistöku Emmeron Mnangagwa, vinstra megin á myndinni, í morgun. Vísir/AFP
Emmerson Mnangagwa sór í morgun embættiseið sem forseti Simbabve á troðfylltum íþróttaleikvangi í höfuðborginni Harare.

Mnangagwa tekur við embættinu af Robert Mugabe sem sagði af sér í gær eftir að hafa verið bolað úr embætti. Mugabe hafði stýrt landinu í 37 ár, fyrst sem forsætisráðherra og svo forseti.

Mugabe rak Mnangagwa úr stóli varaforseta í byrjun mánaðar og ákváðu þá herinn og stjórnarflokkurinn Zanu PF að grípa til aðgerða sem leiddu að lokum til afsagnar Mugabe.

Mnangagwa sneri aftur til Simbabve á miðvikudaginn. Hann hafði flúið land þegar Mugabe hafði rekið hann úr stóli varaforseta til að greiða leið eiginkonu sinnar, Grace Mugabe, til að taka við forsetaembættinu í landinu síðar meir.

Stjórnarandstaðan í landinu hefur skorað á Mnangagwa að binda enda á spillingu í landinu.

„Krókódíllinn“

KMnangagwa, sem er 75 ára, hefur verið einn nánasti samstarfsmaður Mugabe frá því að hann tók við stjórn landsins árið 1980. Mnangagwa hefur gengið undir nafninu „Krókódíllinn“ þar sem hann leiddi uppreisnarhópinn „Crocodile Gang“ í sjálfstæðisbaráttunni gegn bresku nýlenduherrunum á sínum tíma.

Á þessum tíma var hann handtekinn, pyndaður, og kynntist svo Robert Mugabe þegar hann sat í fangelsi eftir að hafa hlotið tíu ára dóm.

Tók þátt í ofsóknum

Talið er að Mnangagwa hafi tekið virkan þátt í ofsóknum gegn hvítum jarðeigendum á áttunda áratugnum og hreinsusum á Ndebele-fólki í landinu. Er áætlað að um 20 þúsund hafi látið lífið í hreinsununum.

Mnangagwa var skipaður nánasti ráðgjafi Mugabe árið 1977 og hefur gegnt fjölda ráðherraembætta frá því að landið varð sjálfstætt. Hann var gerður að varaforseta að loknum kosningunum 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×