Erlent

Mótmælendur bauluðu á bandarísku sendinefndina á loftslagsfundi SÞ

Kjartan Kjartansson skrifar
Hópur fólks stóð fyrir setumótmælum fyrir utan kynningu bandarísku sendinefndarinnar í gær. Ein krafa mótmælenda er að jarðefnaeldsneyti verði skilið eftir neðanjarðar.
Hópur fólks stóð fyrir setumótmælum fyrir utan kynningu bandarísku sendinefndarinnar í gær. Ein krafa mótmælenda er að jarðefnaeldsneyti verði skilið eftir neðanjarðar. Vísir/EPA
Boðskap sendinefndar Bandaríkjastjórnar á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Þýskalandi um að jarðefnaeldsneyti og kjarnorka séu lausn á loftslagsvandanum var tekið fálega í gær. Mótmælendur bauluðu á sendinefndina og gengu á endanum út af kynningu hennar.

Eini opinberi viðburður bandarísku sendinefndarinnar var kynningin sem hún hélt í Bonn í gærkvöldi. Þar talaði meðal annars aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í orkumálum um að það væri heiminum til hagsbóta að halda áfram að nota jarðefnaeldsneyti.

Bruni á jarðefnaeldsneyti er helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda sem valda nú hnattrænni hlýnun. Skilaboð bandarísku sendinefndarinnar ganga því þvert á stefnuna sem aðrar þjóðir, sveitarfélög, fyrirtæki og samtök kynna á fundinum.

New York Times segir að mótmælendur hafi stöðvað kynningu bandarísku nefndarinnar í að minnsta kosti tíu mínútur með söng og slagorðum. Mótmælendurnir gengu síðan út og skildu eftir hálftóman sal. Afgangurinn af kynningunni einkenndist einnig af frammíköllum og andmælum frá áhorfendum.

Stefna ein út úr Parísarsamkomulaginu

Loftslagfundurinn í Bonn er sá fyrsti eftir að Trump lýsti því yfir í júní að hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Samkvæmt skilmálum þess getur hann þó ekki gert það formlega fyrr en árið 2020.

Tilkynnt var í síðust viku að Sýrlendingar hefðu skrifað undir samkomulagið. Bandaríkin eru því eina ríki heims sem stefnir á að standa utan þess. Markmið samkomulagsins er að draga nægilega úr losun gróðurhúsalofttegunda til að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og helst 1,5°C.

Hópur bandarískra ríkis- og borgarstjóra sem eru öndverðum meiði við stefnu Trump-stjórnarinnar er viðstaddur fundinn í Bonn. Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York, gagnrýndi málflutning bandarísku sendinefndarinnar.

„Að tala upp kol á loftslagsfundi er eins og að tala upp sígarettur á krabbameinsfundi,“ sagði Bloomberg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×