Erlent

Presturinn í Tømmerup fékk tíu ára fangelsisdóm

Atli Ísleifsson skrifar
Kirkjan í Tømmerup er vestast á Sjálandi. Presturinn hóf þar störf árið 2004.
Kirkjan í Tømmerup er vestast á Sjálandi. Presturinn hóf þar störf árið 2004. Google Street view
Dómstóll í Danmörku dæmdi í dag prestinn Dan Peschack í tíu ára fangelsi meðal annars fyrir kynferðisbrot gegn einni stúlku og sjö drengjum. Þá var hann einnig dæmdur fyrir vörslu barnakláms. DR greinir frá málinu.

Hinn 47 ára Peschack starfaði í kirkjunni í Tømmerup, vestast á Sjálandi. Börnin voru á aldrinum tólf til sextán ára þegar brotin voru framin.

Saksóknari hafði farið fram á milli tólf og fjórtán ára fangelsi, en verjandi Peschack hafði sóst eftir fjögurra og hálfs til fimm ára dómi.

Presturinn komst í kynni við börnin í kirkjunni, meðal annars í fermingarfræðslu, en brotin voru framin á tíu ára tímabili.

Peschack var einnig sviptur rétti til að starfa sem prestur og að vera einn með börn og unglinga á heimili sínu án þess að vera með annan fullorðinn viðstaddan. Þá var Peschack dæmdur til greiðslu 370 þúsund danskra króna, rúmlega sex milljóna króna, í skaðabætur til fórnarlamba sinna.

Lögregla hóf rannsókn á síðasta ári eftir að faðir drengs tilkynnti manninn til lögreglu. Hann var handtekinn í júní 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×