Innlent

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fundi formanna flokkanna þriggja á þriðjudag.
Frá fundi formanna flokkanna þriggja á þriðjudag. vísir/vilhelm
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna halda áfram í dag. Formennirnir, þau Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir munu hittast á fundi klukkan 13. Þau funduðu einnig í gær og þá fundaði málefnahópur einnig þar sem allir flokkar eiga fulltrúa.

Síðar í dag er svo fyrirhugaður fundur með fulltrúum almenna vinnumarkaðarins en formennirnir hittu fulltrúa opinbera vinnumarkaðarins í gær.

 

Ekkert fæst uppgefið um gang viðræðnanna annað en að þær gangi ágætlega en nú í vikulok ætti það að skýrast hvort að þær muni skila tilætluðum árangri, það er hvort að flokkunum þremur takist að mynda ríkisstjórn.

Það er að minnsta kosti sá tímarammi sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti flokkunum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á mánudag og þá hafa formenn flokkanna einnig talað með þeim hætti að línur ættu að vera orðnar skýrar í lok vikunnar.

Byrjað er að skrifa málefnasamning flokkanna og þá hafa formennirnir byrjað að ræða skiptinu ráðuneyta en ekkert hefur verið gefið út frekar um það annað en að lagt er upp með að Katrín Jakobsdóttir muni verða forsætisráðherra.


Tengdar fréttir

Byrjuð að ræða skiptingu ráðuneyta

Byrjað er að skrifa málefnasamninginn en heimildir fréttastofu herma að samningurinn verði lagður fyrir flokksráð Vinstri grænna til samþykktar á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×