Enski boltinn

Moyes ætti enn þá hálft annað ár eftir af samningnum við United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Já, lífið er ekki alltaf dans á rósum.
Já, lífið er ekki alltaf dans á rósum. vísir/getty
Skoski knattspyrnustjórinn David Moyes sneri aftur í ensku úrvalsdeildina í gær þegar að hann var ráðinn til West Ham sem eftirmaður Króatans Slavens Bilic.

Moyes var síðast með Sunderland í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hann sagði upp störfum þar eftir að falla með liðið. Það var í fyrsta sinn sem Moyes féll með lið á ferlinum.

West Ham er þriðja liðið sem hann tekur við síðan hann var rekinn eftir tæpt eitt tímabil sem knattspyrnustjóri Manchester United en hann stýrði Real Sociedad á Spáni í eitt ár frá 2014-2015 og svo Sunderland á síðustu leiktíð.

Það skondna í þessu er að Moyes ætti enn eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Manchester United hefði allt gengið upp á Old Trafford. Skotinn gerði sex ára samning þegar hann var „The chosen one“ og tók við United af sjálfum Sir Alex Ferguson.

Allt hefur gengið á afturfótunum hjá Moyes síðan hann lét af störfum hjá Everton sumarið 2013 og tók við Manchester United. Hann byrjaði á því að láta reka sig frá United og eftir það fóru hlutirnir úr öskunni í eldinn.

Hann vann aðeins tólf leiki af 42 með Sociedad og var með 28,5 prósent sigurhlutfall en bætti um betur hjá Sunderland þar sem hann vann aðeins átta leiki af 43 og var með 19 prósent sigurhlutfall.

Moyes tekur við West Ham í fallsæti og er ætlað að snúa við gengi Hamranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×