Enski boltinn

Tottenham hefur ekki unnið United tvisvar í röð í 27 ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku og félagar fá Tottenham í heimsókn á morgun.
Romelu Lukaku og félagar fá Tottenham í heimsókn á morgun. vísir/getty
Fyrsti leikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni er jafnframt sá stærsti en hann fer fram í hádeginu á morgun þegar að Manchester United tekur á móti Tottenham.

Liðin eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar með 20 stig eftir síðustu umferð þar sem United tapaði fyrir Huddersfield á útivelli en Tottenham valtaði yfir Liverpool í Ludnúnum, 4-1.

Old Trafford er sögulega erfiðasti útivöllurinn fyrir Tottenham að mæta á en liðinu hefur gengið alveg skelfilega þar frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester United hefur unnið 20 af þeim 25 leikjum sem liðin hafa spilað á Old Trafford í úrvalsdeildinni en Tottenham hefur tvívegis unnið og náð þrisvar sinnum jafntefli.

Í heildina hefur United aðeins tapað fjórum af síðustu 32 leikjum sínum í úrvalsdeildinni á móti Tottenham en þessir fjórir sigurleikir hafa aftur á móti komið í síðustu tíu leikjum liðanna.

Spurs vann síðasta leik liðanna á heimavelli í maí og getur með sigri í hádeginu á morgun unnið tvo leiki í röð á móti United í fyrsta sinn síðan í apríl árið 1990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×