Erlent

Fella niður mál gegn Macchiarini

Atli Ísleifsson skrifar
Paolo Macchiarini.
Paolo Macchiarini. Vísir/AFP
Saksóknarar í Svíþjóð hafa ákveðið að fella niður mál gegn ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini, en hann var grunaður um að hafa verið valdur að dauða annarra eftir að grætt plastbarka í þrjá sjúklinga.

Saksóknarar greindu frá því á fréttamannafundi í morgun að rannsókn hafi verið látin niður falla þar sem ekki væri hægt að færa nægar sönnur á því að aðgerðirnar hafi leitt til dauða fólksins.

Macchiarini var ráðinn til Karolinska í Stokkhólmi árið 2010 og á árunum 2011 til 2013 framkvæmdi hann plastbarkaaðgerðir á sjúkrahúsinu þar sem vonast var til að græða plastbarkana í líkama sjúklinganna og að þeir myndu starfa sem venjulegir barkar með aðstoð stofnfruma.

Í frétt SVT segir að aðferðin hafi hins vegar ekki gengið upp og hafi allir þrír sjúklingarnir látist eftir að aðgerðirnar voru framkvæmdar.

Sjúklingarnir sem um ræðir voru kona frá Tyrklandi, bandarískur karlmaður og Erítreumaður sem var sendur utan frá Íslandi og til Stokkhólms. Auk sjúklinganna þriggja var Macchiarini einnig grunaður um að hafa verið valdur að grófu líkamstjóni fjórða sjúklingsins.

Macchiarini hefur hafnað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar og sagðist hann hafa framkvæmt aðgerðirnar í þeirri von að aðstoða mjög veika einstaklinga.

Saksóknarinn Anders Tordai sagði í morgun að aðgerðir Macchiarini hafi ekki verið í samræmi við vísindalega viðurkenndar aðferðir og að sjúklingarnir hafi ekki verið í bráðri lífshættu á þeim tíma sem aðgerðirnar voru framkvæmdar.


Tengdar fréttir

Um óháða rannsókn á plastbarkamálinu

Hið svokallaða "plastbarkamál“ eða "Macchiarini-mál“ hefur vakið heimsathygli, enda koma þar við sögu tvær virtar stofnanir í Evrópu á sviði lækninga og læknavísinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×