Viðskipti innlent

Azazo tekið til gjaldþrotaskipta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Rekstur Azazo var keyptur út úr þrotabúinu.
Rekstur Azazo var keyptur út úr þrotabúinu. vísir/ernir
Hugbúnaðarfyrirtækið Azazo var tekið til gjaldþrotaskipta í fyrradag. Félag í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) keypti rekstur fyrirtækisins úr þrotabúinu.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í síðustu viku að eignir fyrirtækisins hefðu verið kyrrsettar og það sett í gjörgæslu. Brynja Guðmundsdóttir, stofnandi Azazo og fyrrverandi forstjóri, lagði fram kyrrsetningarbeiðni um miðjan síðasta mánuð til tryggingar launakröfu sem hún telur sig eiga á félagið.

Líkt og áður segir var rekstur fyrirtækisins keyptur úr þrotabúinu af félagi í eigu NSA. Sjóðurinn var stærsti hluthafi hins fallna fyrirtækis. Fasteignir hafi hins vegar orðið eftir í þrotabúinu.

„Azazo er mjög óvenjulegt fyrirtæki sem býður upp á hugbúnaðarlausnir sem margar stofnanir og fyrirtæki eru mjög háð. Megintilgangurinn með ákvörðuninni var að forða þeim hagsmunum sem hefðu getað glatast,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Azazo og fulltrúi NSA í stjórninni.

Aðilaskipti urðu að rekstrinum í gær og mun ríflega helmingur starfsfólks fyrirtækisins halda starfi sínu. Kaupverð er trúnaðarmál en Friðrik segir að það hafi verið sannvirði. Miðað við aðstæður hafi það verið ásættanlegt fyrir báða aðila.

„Með fyrirtæki sem þetta þá þarf að bregðast hratt við. Verðmæti hefðu getað glatast á einum degi. Enginn hefði verið í forsvari fyrir félagið nema slitastjórnin sem hefði aldrei rekið félagið sjálf,“ segir Friðrik. „Aðalatriðið var að koma rekstrinum í skjól.“ 


Tengdar fréttir

Azazo fengið 154 milljónir frá ríkinu

Áhættufjárfestingarsjóðurinn NSA hefur sett alls 154 milljónir í fjárfestingu sína í hugbúnaðarfyrirtækinu Azazo. Fór inn í hluthafahópinn árið 2009 en stjórnendur fyrirtækisins reyna að forða því frá gjaldþroti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×