Innlent

Segir „sveltistefnu“ lögfesta með fjárlagafrumvarpi næsta árs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna. Hún er gagnrýnin á fjárlagafrumvarp næsta árs.
Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna. Hún er gagnrýnin á fjárlagafrumvarp næsta árs. vísir/anton brink
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það sem hún kallar sveltistefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum, sem mörkuð var með fjármálaáætlun til fimm ára sem samþykkt var í vor, sé nú lögfest með fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnti frumvarpið í fjármálaráðuneytinu í morgun en það gerir meðal annars ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi.

Rætt var við Katrínu um frumvarpið í Reykjavík síðdegis í dag.

„Fjárlagafrumvarpið er auðvitað byggt á fjármálaáætluninni sem við vorum að ræða hér í vor og mér sýnist að verið sé að lögfesta þá stefnu sem ég hef kallað sveltistefnu sem þar var lögð því það er ekki verið að sækja fram í neinum málaflokkum. Það slær mann auðvitað bara með stöðuna, til að mynda stöðu ungs barnafólks á húsnæðismarkaði, að við erum að sjá barnabætur lækka og við erum að sjá vaxtabætur lækka,“ sagði Katrín.

Þá sagði hún að ekki væri fyrirséð nein raunhækkun í almannatryggingakerfinu umfram það sem skýrist af fjölgun öryrkja og aldraðra.

„Svo verð ég nú að taka skólamálin sérstaklega því þau standa hjarta mínu nærri og ég hef miklar áhyggjur af stöðu háskóla og framhaldsskóla. Það liggur fyrir að það hefur ekki verið blásið til uppbyggingar í skólakerfinu eftir kreppu. [...] Eftir að skólarnir tóku á sig niðurskurð þá höfum við ekki verið að nýta efnahagsbatann til þess að fjárfesta í menntun eins og við ættum að vera að gera. Þannig að ég vonast nú til þess að það verði einhverjar breytingar til batnaðar sérstaklega fyrir skólana.“

Katrín lýsti svo ánægju sinni með það að haldið yrði áfram með byggingu nýs spítala og að skýr stefna væri í þeim málum og fjármagn fylgdi.

 

„En ég held líka þegar við skoðum heilbrigðismálin, sem voru auðvitað svona málið fyrir síðustu kosningar, þá er ekki verið að svara kröfum kjósenda fyrir þær kosningar.“

Hlusta má á viðtalið við Katrínu í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×