Innlent

Björt framtíð slítur ríkisstjórnarsamstarfinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, þegar þremenningarnir skrifuðu undir stjórnarsáttmálann í janúar síðastliðnum.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, þegar þremenningarnir skrifuðu undir stjórnarsáttmálann í janúar síðastliðnum. vísir/ernir
Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti á fundi sínum í kvöld að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Kosningin fór fram rafrænt og lauk á tólfta tímanum í kvöld.

Í tilkynningu frá Bjartri framtíð segir að ástæðan sé alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.

Hér má lesa viðtal Vísis við stjórnarformann Bjartrar framtíðar, Guðlaugu Kristjánsdóttur, þar sem hún segir frá ástæðum slitanna.

Boðað var til stjórnarfundarins í ljósi nýjustu vendinga í málum sem tengjast uppreist æru en greint var frá því fyrr í dag að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, hefði verið einn umsagnaraðila fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmds kynferðisbrotamanns, þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra.

Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen greindi Bjarna frá því í júlí að Benedikt faðir hans hefði mælt með uppreist æru fyrir Hjalta. Mánuði fyrr tilkynnti dómsmálaráðuneytið að það mæti það sem svo að ekki mætti birta nöfn umsagnaraðila.

Ríkisstjórnarsamstarf Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hafði eins manns meirihluta á Alþingi. 32 þingmenn gegn 31 þingmanni úr stjórnarandstöðunni. Björt framtíð fékk fjóra menn á þing í kosningunum í fyrra. 

Tilkynning Bjartrar framtíðar í heild sinni:

Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.

 

F.hönd stjórnar Bjartrar framtíðar,

Guðlaug Kristjánsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×