Körfubolti

Þá kemur adrenalínið og einhver aukakraftur sem láta alla verki hverfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Ernir
Ísland mætir Póllandi á Evrópumótinu í Helsinki í dag. Það má búast við fullt af Íslendingum í Hartwall höllinni og margir vonast eftir miklu betri úrslitum heldur en á móti Grikkjum í fyrsta leik.

Pavel Ermolinskij viðurkennir alveg fúslega að Póllandsleikurinn sé leikur þar sem strákarnir sjá góðan möguleika á að landa sigri.

„Við höfum við verið að horfa á leikinn á morgun í dálítinn tíma,“ sagði Pavel eftir æfingu liðsins í gær en þeir vissu alltaf að leikurinn við Grikkland yrði liðinu mjög erfiður sem varð raunin.

Pavel lenti oft í því að dekka þunga og stóra Grikki í leiknum á fimmtudaginn og það reyndi því mikið á skrokkinn hans í þessum fyrsta leik.

„Skrokkurinn er ágætur. Þetta eru kannski meiri átök en maður er vanur. Þetta eru fleiri marblettir og slíkt en við erum með frábært sjúkrateymi sem sér um okkur. Það var líka róleg æfing í dag. Ég er hundrað prósent klár á morgun (í dag), sagði Pavel.

Íslendingar munu fjölmenna í stúkuna í Hartwall Arena í dag og það verður mikil upplifun fyrir alla leikmenn liðsins að spila eins og þeir væru á heimavelli. Pavel segir líka að þessi stuðningur geri það að verkum að leikmennirnir hlífi sér ekkert í dag.

„Það myndi ekki skipta máli þótt að ég væri nýbúinn að maraþon því þegar maður kemur inn á völlinn og fólkið mætir þá hverfur þetta. Þá kemur adrenalínið og einhver aukakraftur sem lætur alla verki hverfa,“ sagði Pavel.




Tengdar fréttir

Þarf að vera klókari

Grikkir smjöttuðu á mistökum körfuboltastrákanna okkar í 29 stiga sigri í Helsinki í gær. Frábær annar leikhluti kveikti vel í fjölda Íslendinga sem voru mættir í höllina en hinir þrír leikhlutarnir töpuðust samtals 38-79. Einn af þeim sem geta gert miklu betur er Martin Hermannsson sem dró ekki dul á eigin ábyrgð eftir leik.

Martin: Ég hef aldrei séð það áður hjá íslensku landsliði

Martin Hermannsson er ekkert hrifnari af keppnisboltanum eftir nóttina. Forráðamenn evrópska körfuboltasambandsins voru nefnilega ekki að gera íslensla körfuboltalandsliðinu neinn greiða þegar þeir völdu keppnisboltann fyrir Eurobasket 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×