Körfubolti

Jón Arnór ekki búinn að ákveða neitt

Jón Arnór Stefánsson, einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að íslenska landsliðið geti gengið stolt frá borði eftir EM í Finnlandi. Jón veit ekki hvort hann spili áfram með landsliðinu.

Ísland lauk leik í kvöld þegar liðið tapaði fimmta leik sínum í jafnmörgum leikjum, en í kvöld tapaði Ísland fyrir gestgjöfum Finna í hörkuleik sem tapaðist 83-79.

„Við vorum í þeirri stöðu sem við sáum fyrir okkur. Við ætluðum okkur að vera inn í leiknum í lokin. Við gerum mistök. Kvörtum aðeins í dómaranum og ég veit ekki hvað þeir skora mörg stig í þessari sókn og ná því mómentinu sín megin,” sagði Jón Arnór í samtali við Arnar Björnsson.

Finnar skoruðu sjö stig í einni og sömu sókninni eftir að Ísland fékk dæma á sig tæknivillu. Ísland var meðal annars með yfirhöndina í þriðja leikhlutanum, en þá féllu ekki hlutir með liðinu til að mynda nokkrir dómar og Finnar sigu hægt og rólega fram úr.

„Ég fer útaf með fimm villur sem var hrikalega klaufalegt og eitthvað sem ég þarf að lifa með. Við áttum enn séns á að vinna, en það vantaði herslumuninn.”

„Það er búið að berja okkur niður ansi oft í þessu móti. Við ætluðum okkur að ná saman fjórum leikhlutum og við náðum því í dag. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu og okkar frammistöðu í dag. Stemningin var stórkostleg og okkur líður vel undir þannig kringumstæðum.”

„Stuðningsmenn Finnlands og Íslands harmónuðu vel saman og héldu uppi fjörinu allan leikinn. Ég mun örugglega hugsa um það meira á morgun hversu mikið ég naut þess, en það er bara erfitt að kyngja því að hafa ekki unnið leikinn. Ég hugsa kannski til baka á morgun og verð léttari.”

„Mér fannst nokkrir dómar mjög skrýtnir, sérstaklega í lokin á leiknum. Við blokkum skot hjá þeim og algjörlega glórulaust dæmt tvö víti. Það er kannski eitthvað sem má búast við þegar það eru tólf þúsund Finnar í stúkunni og þeir á sínum heimavelli.”

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað hinn 34 ára gamli og bráðum 35 ára, geri í haust. Er hann hættur með landsliðinu eða hyggst hann halda áfram?

„Ég bara veit það ekki. Ég er ekki búinn að hugsa um það og ákveða neitt. Auðvitað er þetta tilfinning sem þú færð hvergi annarsstaðar. Þetta er hlutur sem þú átt eftir að sakna þegar maður hættir og það verður erfitt að stíga frá þessu. Ég tek mér tíma og hugsa málið. Ég sé svo til.”

„Það er eiginlega ótrúlegt að ég sé standandi hér enn þá og að ég hafi spilað svona mikið. Ég hef ekki spilað körfubolta síðan í úrslitaleiknum gegn Grindavík. Það er nánast fáranlegt.”

„Ég er ótrúlega þakklátur að hafa fengið að taka þátt í þessu móti og að deila þessum mómentum með mínum liðsfélögum og fólkinu. Ég er ævinlega þakklátur fyrir það,” sagði Jón Arnór að lokum.

Allt viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Logi fékk afmælisköku eftir leikinn í gær

Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson hélt upp á 36 ára afmælið sitt í gær og náði því í annað skiptið á sínum ferli að spila Eurobasket leik á afmælisdaginn sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×