Körfubolti

„Ég er bara mjög spenntur, þeir eru klár­lega ‘the team to beat’“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, skoraði 8 stig, greip 2 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í kvöld.
Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, skoraði 8 stig, greip 2 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Halldór Garðar Hermannsson var auðmjúkur eftir stórsigur Keflavíkur gegn Álftanesi í kvöld. Þeir halda áfram í undanúrslit og mæta Grindavík, liðinu sem allir vilja vinna.  

„Ég vil byrja á því að þakka Álftanesi fyrir frábæra seríu. Í þessum leik fannst mér skot falla sem við erum búnir að fá í öllum leikjum, þeir voru búnir að gera vel varnarlega, en í dag fannst mér við sprengja þetta upp. Það losnaði um allt, fengum auðveldar körfur og sjálfstraust. Þá er gott að spila.“

Leikurinn byrjaði af krafti fyrir Keflvíkinga. Álftanes vann uppkastið en Keflavík stal boltanum og Jaka Brodnik tróð honum niður. 

„Ég er algjörlega sammála því. Væri til í að Jaka byrjaði alltaf á troðslu, það er góð innspýting í leikinn. Orkan varnarlega líka, þvílík samvinna. Mér fannst við gera frábærlega bæði í sókn og vörn.“

Í hálfleik hafði Keflavík skorað 56 stig. Jafnmörg og í öllum leiknum síðast í Forsetahöllinni. Var þetta eitthvað sem liðið hugsaði um? 

„Já, það var nákvæmlega það sem við hugsuðum. Pétur var búinn að hamra á þessu alla vikuna, við vorum með þessa tölu í huga og vildum ná henni í fyrri hálfleik.“

Keflavík heldur áfram í undanúrslit og mætir þar Grindavík, einu heitasta liði deildarinnar að undanförnu sem sópaði Íslandsmeisturum Tindastóls í sumarfrí. 

„Þeir eru búnir að vera heilt yfir, og Valsararnir, sterkasta liðið í vetur. Sópuðu sinni seríu og koma örugglega af krafti inn í þetta. Ég er bara mjög spenntur, þeir eru klárlega ‘the team to beat’“ sagði Halldór að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×