Körfubolti

Tekið á móti Tryggva eins og Hollywood stjörnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auglýsing fyrir heimildarmyndina þar sem má sjá Tryggva Snæ Hlinason og Rafa Martínez í fjárhúsinu í Svartárkoti í Bárðardal.
Auglýsing fyrir heimildarmyndina þar sem má sjá Tryggva Snæ Hlinason og Rafa Martínez í fjárhúsinu í Svartárkoti í Bárðardal. Liga Endesa

Það var mikil viðhöfn í Sala BBK bíósalnum í Bilbao á Spáni í gærkvöldi þegar frumsýnd var ný heimildarmynd um íslenska landsliðsmiðherjann Tryggva Snæ Hlinason.

Myndin heitir Kindur (Ovejas) og fjallar um sumarið hjá Tryggva. Nánast til getið þá fór spænski körfuboltamaðurinn Rafa Martínez í heimsókn til hans á bóndabæ fjölskyldunnar í Svartárkoti í Bárðardal.

Svartárkot er 40 kílómetra frá næsta bæ sem er Akureyri og er efsti bærinn í Bárðardalnum. Saga Tryggva ef vissulega efni í bíómynd en aðeins á þremur árum fór hann frá því að mæta á fyrstu körfuboltaæfinguna í það að spila í Meistaradeildinni.

Martínez ákvað að skoða betur aðstæður hjá Tryggva og fá að eyða dögum með íslenska landsliðsmanninum með kindunum, hestunum og við fiskveiðar. Tryggvi fer alltaf heim á sumrin þegar hann fær frí frá atvinnumennskunni á Spáni.

„Tryggvi sagði mér að hann væri smali á sumrin og ég lofaði því að heimsækja hann um leið og ég setti skóna upp á hillu,“ sagði Rafa Martínez í kynningu á myndinni á heimasíðu Bilbao Basket.

Spænska deildin framleiðir heimildarmyndina og ákveðið var að frumsýna í Bilbao þar sem Tryggvi spilar með liði Bilbao Basket.

Tryggvi var sérstakur heiðursgestur á frumsýningunni og það var tekið á móti honum í bíósalnum eins og hann væri ein af stóru Hollywood stjörnunum. Allir klöppuðu fyrir honum og hann var leiddur á besta stað á fremsta bekk.

Hér fyrir neðan má sjá móttökurnar sem Tryggvi fékk í gærkvöldi. Enn neðar má síðan sjá stiklu myndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×