Erlent

Scaramucci segir öfl innan Hvíta hússins grafa undan Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Scaramucci hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið.
Anthony Scaramucci hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Vísir/AFP
Ákveðin öfl innan Hvíta hússins eru að reyna að koma Donald Trump úr embætti forseta. Þetta sagði Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, í fyrsta viðtalinu eftir að hann var rekinn eftir aðeins tíu daga í starfi.

„Ég held að það séu öfl í Washington, það nær einnig til Hvíta hússins, sem eru ekki endilega að styðja hagsmuni eða stefnumál forsetans,“ sagði Scaramucci við ABC-sjónvarpsstöðina í dag.

Ástæðuna sagði hann þá að Trump væri ekki fulltrúi stjórnmálastéttarinnar í Washington þá vilji fólk úr henni koma veltu honum úr forsetastóli, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Forsetinn þarf fleiri trygglynda menn

Um viðtalið fræga þar sem hann jós fúkyrðum yfir Reince Priebus, þáverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, og Steve Bannon, aðalráðgjafa Trump, sagði Scaramucci að hann hefði ekki vitað að orð hans væru ætluð til birtingar.

Þegar hann var beðinn um að nefna nöfn þeirra sem ynnu gegn Trump í dag sagði hann þegar hafa gert það og að breytingar hefðu þegar verið gerðar. Forsetinn þyrfti hins vegar fleiri menn holla sér til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.

Priebus sagði af sér eða var rekinn skömmu eftir að viðtal New Yorker við Sacaramucci var birt í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

New Yorker birtir upptöku af fúkyrðaflaumi Scaramucci

Samskiptastjóri Hvíta hússins var látinn taka poka sinn eftir að hann jós úr reiðiskálum sínum með fúkyrðum við blaðamann New Yorker í síðustu viku. Tímaritið hefur birt upptöku af hluta samtals þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×