Erlent

Enn er leitað að sænskri blaðakonu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Leitað var í kafbátnum en ekkert lík fannst.
Leitað var í kafbátnum en ekkert lík fannst. Vísir/AFP

Peter Madsen, danskur auðkýfingur og kafbátasmiður, er í haldi lögreglu grunaður um manndráp af gáleysi. Leit stendur yfir að sænskri blaðakonu sem síðast sást í för með manninum í kafbáti hans.

Málið er hið óvenjulegasta. Hin þrítuga Kim Wall fór ásamt Madsen í kafbátinn Nautilius til þess að rita grein um bátinn. Báturinn sökk hins vegar í för þeirra á föstudag og var Madsen bjargað. Ekkert hefur spurst til Wall.

Leitað var í kafbátnum í gær og sást hvorki tangur né tetur af Wall. Að sögn Madsen hafði hann skilað Wall upp á þurrt land áður en kafbáturinn sökk og segist hann ekki hafa hugmynd um afdrif hennar eftir það. Daninn gaf þá skýringu að Nautilius, sem eitt sinn var stærsti kafbátur heims í einkaeigu, hefði sokkið vegna bilunar en það stangast á við athugun lögregluyfirvalda sem telja að honum hafi verið grandað af ásettu ráði.

Kærasti Wall tilkynnti hvarf hennar eftir að hún skilaði sér ekki úr ferðinni. Leit stendur yfir og hafa leitarmenn ekki gefið upp von um að hún finnist á lífi. Madsen verður í 24 daga varðhaldi á meðan á rannsókn stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×