Erlent

Ekið á hóp fólks í grennd við París

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bærinn Sept-Sorts er staðsettur í grennd við París en á mynd sjást lögreglumenn að störfum á vettvangi í kvöld.
Bærinn Sept-Sorts er staðsettur í grennd við París en á mynd sjást lögreglumenn að störfum á vettvangi í kvöld. Vísir/afp
Þrettán ára stúlka er látin og að minnsta kosti fjórir eru alvarlega særðir, þar á meðal bróðir stúlkunnar, eftir að ökumaður keyrði bifreið sinni á hóp fólks sem sat að snæðingi á veitingastað í bænum Sept-Sorts í Frakklandi í kvöld. AP-fréttaveita greinir frá. Atvikið er ekki rannsakað sem hryðjuverk.

Fólkið sat og borðaði kvöldmat úti undir beru lofti á veitingastað í bænum Sept-Sorts, sem staðsettur er í grennd við París, þegar keyrt var á það. Ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar en hann er andlega veikur.

Uppfært klukkan 20:45:

Ökumaðurinn, sem er fæddur 1985, er sagður hafa tjáð lögreglu að hann vildi fremja sjálfsmorð. Þá sagðist hann einnig hafa meðferðis vopn í bílnum sem er af tegundinni BMW. Ökumaðurinn virtist enn fremur ekki hafa komið áður við sögu lögreglu.

Ekki er talið að um hryðjuverkaárás sé að ræða, að því er segir í frétt BBC, en maðurinn er þó sagður hafa ekið viljandi á fólkið.

Uppfært klukkan 20:54:

Í frétt breska dagblaðsins Guardian er maðurinn sagður hafa ekið á verönd fyrir utan veitingastaðinn, þar sem sátu um 20 manns, og að því búnu reynt að bakka í burtu. Hann hafi þó verið stöðvaður og lögreglumenn hafi mætt á staðinn skömmu síðar. 

Þá bendir ekkert til þess að öfgasamtök tengd Islam eigi einhvern hlut að máli en greinilegt þykir að maðurinn hafi glímt við andleg veikindi.

Uppfært klukkan 21:41:

Samkvæmt frétt BBC er maðurinn franskur og 32 ára en ekki 39 ára eins og fyrst var talið.

Yngri bróðir stúlkunnar sem lést er á meðal hinna særðu. Talsmaður franska innanríkisráðuneytisins sagði að stúlkan hafi verið 13 ára, að því er segir í frétt Guardian.

Í síðustu viku var ekið á hóp hermanna í París en sex særðust í árásinni. Hermennirnir höfðu staðið við hlið bifreiðar hjá Place de Verdun, ekki langt frá ráðhúsi sveitarfélagsins Levallois-Perret í norðvesturhluta Parísar.



Eric de Valroger, saksóknari í Meaux, gaf fjölmiðlum upplýsingar um atvikið í kvöld.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×