Erlent

Ætlaði að sprengja banka í loft upp

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Síðastliðinn laugardag keyrði Varnell sendibifreið að útibúi bankans BancFirst í miðbæ Oklahoma City. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Síðastliðinn laugardag keyrði Varnell sendibifreið að útibúi bankans BancFirst í miðbæ Oklahoma City. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn og ákærður fyrir að reyna að sprengja upp banka í Oklahoma City í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum.

Ákærði, Jerry Drake Varnell, sagði lögreglumönnum að hann vonaði að aðgerðir hans myndu „örkumla ríkisstjórnina“ og koma af stað „byltingu.“ Að endingu reyndist þó ekki um að ræða alvöru sprengju.

Síðastliðinn laugardag keyrði Varnell sendibifreið að útibúi bankans BancFirst í miðbæ Oklahoma City. Varnell taldi bifreiðina vera stolna og enn fremur hlaðna um 450 kílóum af sprengiefnum. Hann lagði bifreiðinni og reyndi að því búnu að koma sprengjunni af stað með því að hringja í tiltekið símanúmer, sem hann gerði ráð fyrir að væri tengt sprengjunni.

Varnell hafði einnig tekið upp skilaboð sem hann ætlaði að hlaða á netið eftir árásina. Hann tjáði heimildarmanni lögreglunnar að mikilvægt væri að hafa tilbúna yfirlýsingu til að setja á samfélagsmiðla svo önnur hryðjuverkasamtök myndu ekki eigna sér árásina.

Embættismenn hjá Bandarísku alríkislögreglunni, FBI, sögðu sprengibúnaðinn alltaf hafa verið óvirkan og engin hætta hafi steðjað að almenningi vegna hans.

Varner hefur verið ákærður fyrir tilraun til að nota sprengiefni til að eyðileggja byggingu. Hann stendur nú frammi fyrir allt að 20 ára fangelsisvist verði hann dæmdur sekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×