Erlent

Maduro fyrirskipar miklar heræfingar eftir ummæli Trump

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist á föstudaginn ekki útiloka hernaðarinngrip í Venesúela.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist á föstudaginn ekki útiloka hernaðarinngrip í Venesúela. Vísir/AFP
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hefur fyrirskipað umfangsmiklar heræfingar í landinu eftir ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um hernaðarlega íhlutun í Venesúela vegna óaldarinnar sem þar ríkir.

Maduro sagði í sjónvarpsávarpi að almenningur þurfi að vera reiðubúinn að verja heimalandið gegn oki bandarískra heimsvaldssinna.

Áætlað er að heræfingarnar fari fram dagana 26. og 27. ágúst næstkomandi.

Trump sagðist á föstudaginn ekki útiloka hernaðarinngrip í Venesúela, en umfangsmikil mótmæli hafa farið fram í landinu undanfarna mánuði og hefur Maduro verið sakaður um einræðistilburði.

Leiðtogar ríkja í Suður-Ameríku hafa fordæmt orð Trump, sem og leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela.

Nýverið voru haldnar umdeildar kosningar til nýs umdeilds stjórnlagaþings sem gera á breytingar á stjórnarskrá landsins. Stjórnarandstaðan er með meirihluta á löggjafarþinginu.

120 látið lífið í Venesúela

„Við höfum marga möguleika í Venesúela,“ sagði Trump. „Þeir eru nágrannar okkar. Við erum með hermenn út um allan heim og á stöðum sem eru mjög langt í burtu. Venesúela er ekki langt í burtu og fólkið þar er að þjást og þau eru að deyja. Við höfum marga möguleika í Venesúela og þar á meðal mögulegt hernaðarinngrip.“

Um 120 manns hafa látið lífið í mótmælum í Venesúela síðustu mánuði.


Tengdar fréttir

Trump veldur titringi í Rómönsku-Ameríku

Suðurameríska fríverslunar- og tollabandalagið Mercosur hefur fordæmt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að segjast vera að íhuga hernaðaríhlutun í Venesúela og fullyrða að samtal og samningar séu einu leiðirnar til að efla framgang lýðræðis í Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×