Viðskipti innlent

Hagar taka högg í Kauphöllinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir
Gengi í Högum hefur fallið um 7 prósent frá því að markaðir opnuðu í morgun í 168 milljóna viðskiptum. Lækkunin kemur í kjölfar fréttar Fréttablaðsins í morgun þar sem greint er frá því að um 18,6 milljarðar króna af markaðsvirði smásölurisans hafa þurrkast út frá því að bandaríska keðjan Costco opnaði verslun sína í Kauptúni í maímánuði.

Forsvarsmenn Haga sendu á föstudagskvöldið frá sér sína aðra afkomuviðvörun á einum mánuði þar sem varað var við því að EBIDTA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði – verði um tuttugu prósentum lægri á öðrum fjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Sjá einnig: Rúmir 18 milljarðar þurrkast út eftir opnun Costco

Þá ógilti Samkeppniseftirlitið í síðasta mánuði kaup Haga á Lyfju og fjallar nú um fyrirhuguð kaup Haga á Olís. Litið er á samrunana sem tilraunir Haga til að bregðast við breyttu samkeppnisumhverfi með tilkomu Costco. Alls hefur gengi hlutabréfa í Högum lækkað um 28,7 prósent frá því að Costco opnaði verslun sína 23. maí síðastliðinn. Á sama tíma hefur markaðsvirði Haga lækkað um 28,8 prósent, úr 64,7 milljörðum í 46,1 milljarð.

Stærstu hluthafar Haga eru lífeyrissjóðurinn Gildi sem fer með 12,95% hlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A-deild, sem á 10,24%.


Tengdar fréttir

Rúmir 18 milljarðar þurrkast út eftir opnun Costco

Forsvarsmenn Haga sendu á föstudagskvöldið frá sér sína aðra afkomuviðvörun á einum mánuði þar sem varað var við því að EBIDTA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði – verði um tuttugu prósentum lægri á öðrum fjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×