Innlent

Stuðningsfulltrúi hjá Hjallastefnunni sem sakaður var um að beita barn ofbeldi snýr ekki aftur til starfa í haust

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Margrét Pála Ólafsdóttir, fulltrúi Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, fulltrúi Hjallastefnunnar.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur lokið könnun gegn tveimur starfsmönnum Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík á grundvelli tilkynninga um að mögulega hafi börn verið beitt ofbeldi innan skólans. Um var að ræða stuðningsfulltrúa og skólastjóra skólans sem samkvæmt verklagsreglum skólans voru strax sendir í leyfi á meðan könnun málsins fór fram. Stuðningsfulltrúinn mun ekki snúa aftur til starfa við skólann í haust. Áður hafði komið fram að skólastjórinn snúi aftur til starfa.

Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur telja að erfiðar aðstæður og álag hafi skapast í tilteknum nemendahópi og að í einhverjum tilvikum hafi viðbörgð viðkomandi við óæskilegri hegðun ekki verið eins og best hefði verið á kosið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hjallastefnunni.

Þar kemur einnig fram að þau viðbrögð stuðningsfulltrúans hafi ekki verið með þeim hætti að Barnavernd Reykjavíkur telji þörf á að óska eftir lögreglurannsókn og telst málinu lokið af þeirra hálfu.

Börn njóti alltaf vafans

„Við fögnum því að skýrar niðurstöður liggi fyrir og þökkum öllum sem að málinu hafa komið á einn eða annan veg. Það er mikill léttir að starfsemi skólans reyndist traustsins verð en við hörmum innilega að starfsmaður okkar hafi ekki náð að bregðast við börnum á besta hátt í öllum tilvikum. Því verður mætt með áframhaldandi vinnu við verkferla og viðbrögð sem og að fækka álagsþáttum í samvinnu við utanaðkomandi aðila,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir, fulltrúi Hjallastefnunnar.

Í tilkynningu segir að skólinn hafi skýra stefnu um að börn og þarfir þeirra séu í fyrirrúmi og að börn skuli alltaf njóta vafans hvað sem á dynur.

„Við mál sem þetta er óhjákvæmilegt að traust brotni, bæði hjá starfsfólki og öðrum aðilum. Allir þarfnast nú ráðrúms til heilunar eftir sársaukafulla reynslu síðustu vikna og allir eiga rétt á viðeigandi tíma til að meta stöðu sína. Af þeim sökum var það sameiginleg niðurstaða að viðkomandi starfsmaður komi ekki til starfa í haust,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Móðir upplifir þöggun af hálfu Hjallastefnu

Guðrún Lilja Magnúsdóttir, móðir drengs í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, segir barn sitt hafa orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi af hálfu starfsfólks skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×