Innlent

Landnám Eiríks rauða á heimsminjaskrá

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eystribyggð á Grænlandi, landnám Eiríks rauða, er komin á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru þriðju menningarminjar Íslendingasagna sem hljóta þennan virðulega sess. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 sem sjá má hér að ofan. 

Þingvellir komust á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004, sem menningar- og náttúruminjastaður sem talinn er hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Surtsey komst á skrána árið 2008 yfir náttúruminjar sem einstök rannsóknarstöð til að fylgjast með þróun lífs frá lokum eldgoss. 

Frá L'Anse aux Meadows á nyrsta hluta Nýfundnalands í Kanada. Fornleifar sem þar fundust árið 1960 eftir norræna vikinga komust heimsminjaskrá UNESCO árið 1978.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson
Áður voru norrænu tóftirnar á L'anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands í Kanada búnar að vera á lista UNESCO frá árinu 1978 en þær eru taldar staðfesta frásagnir Íslendingasagna um siglingar Leifs heppna, Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur til Ameríku í kringum árið 1000. 

Og nú hefur landnám Eiríks rauða á Grænlandi bæst við en heimsminjanefnd Sameinuðu þjóðanna tilkynnti þetta á ársfundi sínum í Krakow í Póllandi um helgina. 350 ferkílómetra svæði í hinni fornu Eystribyggð er nú skilgreint sem einstakar menningarminjar fyrir heimssöguna, ekki aðeins fornminjarnar heldur einnig landslagið sem vitnisburður um þann landbúnað sem afkomendur Íslendinga stunduðu þar um nærri 500 ára skeið.

Íslenskir ferðamenn við rústir Hvalseyjarfjarðarkirkju í Eystribyggð á Grænlandi.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Húsarústirnar sem norrænir menn skyldu eftir sig, eins og dómkirkjurústin í biskupsetrinu að Görðum og Hvalseyjarfjarðarkirkja, eru í raun hluti Íslandssögunnar. Í Landnámabók segir að eftir að Eiríkur rauði sigldi úr Breiðafirði, settist að í Brattahlíð og gaf landinu nafnið Grænland hafi 25 skip siglt þangað með fólk úr Breiðafirði og Borgarfirði til að nema þetta nýja land. 

Síðustu fréttir sem bárust af norrænu byggðinni er svo frásögn af brúðkaupi Íslendinganna Þorsteins Ólafssonar og Sigríður Björnsdóttur í Hvalseyjarfjarðarkirkju árið 1408. Eftir það hefur ekkert spurst til norrænu þjóðarinnar á Grænlandi en hvarf hennar er ein mesta ráðgáta mannkynssögunnar. 

Íslenskir ferðamenn skoða fornar rústir biskupsstólsins að Görðum, sem lengst af var helsta valdamiðstöð norrænu byggðarinnar á Grænlandi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Landnámssagan er efniviður þáttaraðarinnar Landnemarnir á Stöð 2 en þættirnir eru endursýndir á fimmtudagsmorgnum í sumar. Þátturinn næstkomandi fimmtudag fjallar um papana og er á dagskrá kl. 10.40.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×