Erlent

Skotin til bana á kjörstað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vopnaður maður á mótorhjóli er sagður hafa hleypt skotum af á kjörstað í Caracas. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vopnaður maður á mótorhjóli er sagður hafa hleypt skotum af á kjörstað í Caracas. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/afp
Kona var skotin til bana í Caracas í Venesúela í dag þegar hún beið þess að greiða atkvæði í óformlegri atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá landsins. Atkvæðagreiðslan var skipulögð af stjórnarandstæðingum Nicolasar Maduro, forseta Venesúela, sem leggur til breytingarnar umdeildu.  Þrjá sakaði í skotárásinni.

Hugmyndir Maduro kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Um er að ræða 500 manna stjórnlagaþing sem afgreiða á breytingar sem forsetinn vill gera á stjórnarskránni, auk þess sem stjórnlagaþingið fengi heimild til þess að endurskrifa stjórnarskránna. Þannig yrði stjórnarskráin færð úr höndum þingsins, þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta. Kosið verður um hugmyndirnar í lok þessa mánaðar.

Stjórnarandstæðingar hafa tekið afar illa í þessar hugmyndir og hafa hörð mótmæli geisað í landinu allt frá því að þær voru kynntar fyrir 107 dögum síðan. Yfir hundrað manns hafa týnt lífi í mótmælunum undanfarnar vikur.

Í atkvæðagreiðslu dagsins var spurt að því hvort gera ætti fyrrnefndar breytingar, og hvort kjósa eigi að nýju, en að óbreyttu mun Maduro sitja í embætti til  ársins 2018. Settir voru upp 2.030 kjörstaðir víðs vegar um landið í dag. Maduro lýsti því yfir í dag að atkvæðagreiðslan væri algjörlega þýðingarlaus.

Maduro er sakaður um einræðistilburði og að hafa valdið bæði pólitískri og efnahagslegri kreppu í landinu, en mótmæli hafa verið tíð í landinu allt frá því hann tók við af forvera sínum Hugo Chavez árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×