Erlent

Þota Bandaríkjahers skaut niður íranskan dróna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Orrustuþotan sem skaut niður íranska drónann var af gerðinni F-15E Strike Eagle. Tvær slíkar þotur sjást hér á mynd.
Orrustuþotan sem skaut niður íranska drónann var af gerðinni F-15E Strike Eagle. Tvær slíkar þotur sjást hér á mynd. Vísir/AFP
Bandarísk herþota skaut niður dróna, sem framleiddur var í Íran, í suðurhluta Sýrlands. Drónanum var stýrt af hersveitum hliðhollum sýrlensku ríkisstjórninni. BBC greinir frá.

Í tilkynningu frá Bandaríkjaher segir að dróninn sem skotinn var niður hafi borið vopn. Þá er hann einnig sagður hafa ógnað hersveitum bandamanna Bandaríkjahers á jörðu niðri. Dróninn var skotinn niður norðaustan við al-Tanf, útvarðarstöð Bandaríkjahers við landamæri Sýrlands, Íraks og Jórdaníu, skömmu eftir miðnætti í nótt að staðartíma.

Þetta er annar dróninn í þessum mánuði sem Bandaríkjaher skýtur niður i í sýrlenskri lofthelgi. Þá skaut herinn niður sýrlenska herþotu á sunnudag.

Bandaríkjaher staðfesti einnig nýlega að sveitir bandamanna hersins hefðu ráðið niðurlögum eins af helstu klerkum hryðjuverkasamtakanna ISIS, Turki al-Binali, í loftárás í Sýrlandi í síðasta mánuði. Einstaklingar tengdir ISIS hafa einnig staðfest dauða al-Binali.

Talið er að íranski dróninn sem skotinn var niður hafi verið af gerðinni Shahed 129 en fyrsta eintak af tegundinni var kynnt til sögunnar árið 2012. Hann er talinn hafa drægi upp á um 2000 kílómetra og geta borið bæði sprengjur og eldflaugar.

Á vef Guardian kemur fram að aðgerðir Bandaríkjahers við al-Tanf hafi grundvallast alfarið á sjálfsvörn. Bandaríkin og bandamenn þeirra á svæðinu hafa jafnframt einbeitt sér að baráttunni við ISIS og reynt að forðast átök við Rússa og Írani, bandamenn sýrlensku ríkisstjórnarinnar.

Með minnkandi íhlutun ISIS á svæðinu hafa þó líkur aukist á átökum milli afla sem berjast um yfirráð á þessum slóðum í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×