Erlent

Gagnrýna skipulag björgunaraðgerða í Portúgal

Atli Ísleifsson skrifar
Forsætisráðherrann hefur farið fram á skýringar á hvað varð þess valdandi að fjarskiptakerfi björgunaraðila bilaði á ögurstundu um helgina.
Forsætisráðherrann hefur farið fram á skýringar á hvað varð þess valdandi að fjarskiptakerfi björgunaraðila bilaði á ögurstundu um helgina. Vísir/afp
Skipulag björgunaraðgerða í tengslum við skógareldana í Portúgal hefur sætt vaxandi gagnrýni og hefur forsætisráðherra landsins nú krafist svara frá yfirmönnum stofnana sem ábyrgð bera á björgunarstarfinu.

Rúmlega 1.100 slökkviliðsmenn vinna nú að því að slökkva eldana sem kviknuðu á laugardag. Alls hafa á sjöunda tug manna látið lífið í eldunum þar sem flestir urðu eldinum að bráð þar sem þeir voru í bílum sínum að reyna að komast frá hættusvæðunum.

Flestir þeir sem létust voru í bílum á vegi númer 236 milli Figueiró dos Vinhos og Castanheira de Pera – vegar sem hefur nú fengið viðurnefnið „Vegurinn til dauða“ – og spyrja menn sig nú af hverju veginum hafi ekki verið lokað.

Antonio Costa forsætisráðherra hefur krafist svara frá ábyrgum yfirvöldum um ástæður þess að vegfarendum hafi verið vísað á veg númer 236 þegar búið var að loka öðrum vegi, IC8. Sjónarvottar segja frá því að hermenn hafi stýrt umferð inn á veg 236 þar sem 47 manns áttu eftir að brenna inni í bílum sínum.

„Við sáum ekkert, við gátum ekki einu sinni séð veginn, bara eldtungurnar og trén sem féllu á veginn,“ segir Maria de Fatima, sem lifði ferðina af, í samtali við portúgalska fjölmiðla.

Þá hefur forsætisráðherrann jafnframt farið fram á skýringar á ástæðum þess að fjarskiptakerfi björgunaraðila bilaði á ögurstundu um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×